Fréttir - Blak

5. flokkur Íslandsmeistarar A-liða!

Blak | 21.05.2013 Síðasta mótið á Íslandsmótaröðinni í 5. og 6. flokki var spiluð í Neskaupstað dagana 12.-13. apríl. Er skemmst frá því að segja að  5. flokks lið Skells varð Íslandsmeistarar A-liða eftir harða baráttu, en í liðinu eru bæði strákar og stelpur frá Suðureyri og Ísafirði. Í 5. flokki voru deildir ekki kynjaskiptar, enda ekki sérstakur getumunur á strákum og stelpum í blaki á þessum aldri. Samtals voru 25 lið í 5. flokki á mótinu þannig að árangurinn er glæsilegur.

Lið Skells í 6. flokki náði líka góðum árangri en þau kepptu mikla baráttuleiki og unnu tvo en töpuðu tveimur á þessu móti. Þau unnu alla leikina á fyrra mótinu sínu, en ekki eru reiknuð sæti á Íslandsmótinu í 6. flokki heldur fá allir þátttökupening.

Hérna fyrir neðan er ferðasagan í stuttu máli, en fleiri myndir úr ferðinni eru á Facebook síðu Blakfélagsins Skells:

Ferðin gekk vel og var viðburðarík. Flugvélin náði sem betur fer að lenda á milli élja á Ísafirði á föstudagsmorgni og á flugvellinum í Reykjavík hittum við Pál Óskar sem var líka á leið til Neskaupstaðar að spila á unglingaballi. Hann gaf eiginhandaráritanir með glöðu geði og stillti sér upp til myndatöku með krökkunum. Farið var með rútu frá Egilsstöðum til Neskaupstaðar og á leiðinni sáum við hóp af hreindýrum rétt við veginn. Ekki slæmt að ná bæði Páli Óskari og hreindýrum strax á fyrsta degi! Við spiluðum æfingaleiki við fullt af krökkum í gulum búningum (Þrótt Nes) og það gekk mjög vel. Síðan fórum við í kaffiboð til afa og ömmu Kára (foreldra Hörpu) og síðan voru gerðar pizzur í skólanum.

Á degi tvö var ræs kl. 6:45, morgunverður og svo beint í leiki. Liðunum gekk vel og krakkarnir voru duglegir og prúðir. 5. flokks liðið vann alla sína leiki þennan dag og 6. flokkur vann einn leik og tapaði tveimur en þeir fóru báðir í oddahrinu. Eftir leikina var farið í laaanga og skeeemtilega sundferð - tveir og hálfur tími takk fyrir og mörg hundruð ferðir samtals í Dóra rauða, en stóra rennibrautin heitir það. Skúffukaka og mjólk og svo var matur og kvöldvaka. Krakkarnir okkar fóru að sjálfsögðu á kostum á kvöldvökunni og eignuðust marga nýja vini.

Síðasta daginn var líka vaknað eldsnemma og spilaðir leikir. 6. flokkur vann sinn leik - í oddahrinu að sjálfsögðu. 5. flokkur vann einn og tapaði einum sem dugði þeim til Íslandsmeistaratitils.

Þetta er í þriðja sinn sem lið frá Skelli verður Íslandsmeistari í 5. flokki, en í fyrsta sinn hjá þessum krökkum. Við erum virkilega stolt af krökkunum okkar og sjáum fyrir okkur bjarta framtíð blaksins á Norðanverðum Vestfjörðum.
Nánar

Arnar nýr í stjórn félagsin

Blak | 30.03.2013 Blakfélagið Skellur hélt aðalfund sinn þriðjudagskvöldið 19 mars.  Um var að ræða hefðbundin aðalfundarstörf.  Skýrslu formanns má finna undir félagið og skýrslur, þar sem nokkuð ítarlega er farið yfir starfsemi ársins 2012.  Í skýrslu gjaldkera kom fram að fjárhagsleg staða félagsins er traust og ágætur afgangur varð á síðasta ári.  Munar þar mest um þau tvö blakmót sem félagið hélt á vegum BLÍ.Einhverjar mannabreitingar urðu í stjórn félagsins.  Samkvæmt lögum félagsins er árlega kosinn formaður og að auki tveir af fimm stjórnarmönnum og báðir varamenn stjórnar.  Arnar Guðmundsson frá Súgandafirði kemur nýr inn í stjórn í stað Gunnars Bjarna Guðmundssonar.  Þá kemur Ari Klængur Jónsson nýr inn í vara stjórn í stað Margrétar Eyjólfdóttur.  Í Barna og unglingaráði var Svava Rán Valgeirsdóttir kjörinn ný inn í stað Arnheiðar Ingibjargar Svanbergsdóttur.Vill undirritaður bjóða nýkjörna stjórnarmenn velkomna til starfa fyrir félagið og íþróttina sem og þakka hinum sem losnuðu undan skyldum, kærlega fyrir þeirra framlag á undanförnum árum. Nánar

Aðalfundur Blakfélagsins Skells

Blak | 07.03.2013

Blakarar og blak-krakkaforeldrar í Ísafjarðarbæ

athugið

Aðalfundur Blakfélagsins Skells verður haldinn þriðjudaginn 19 mars 2013 kl. 19.30

í salnum á efri hæð Íþróttahússins á Torfnesi

Dagskrá fundarins:

· Hefðbundin aðalfundarstörf

o skýrslur stjórnar

o kosning í stjórn

o kosning í krakkablaksráð

· Önnur mál

Foreldrar og félagar eru hvattir til að fjölmenna.


Stjórnin

Nánar

3. flokkur stúlkna á bikarmóti í Reykjavík

Blak | 28.02.2013 Höfrungur og Skellur sendu sameinað lið í 3. flokki kvenna á bikarmót 2. og 3. flokks í Reykjavík helgina 23.-24. febrúar.  Liðið var skipað þremur stúlkum frá Ísafirði, tveimur frá Þingeyri og einni frá Suðureyri. Stelpurnar höfðu ekki spilað mikið allar saman, en náðu einstaklega vel saman á mótinu og liðið óx með hverjum leik.

Guðrún og Steinn frá Þingeyri keyrðu suður á tveimur fólksbílum. Guðrún var fararstjóri og gisti með hópnum. Harpa flaug suður í tengslum við vinnu og stjórnaði liðinu á mótinu. Ferðin gekk rosalega vel - ekki hægt að biðja um betri færð á þessum árstíma - allt autt.

Á bikarmótum er ekki skipt í getuflokka heldur eru öll liðin saman í deild. Skellur var í riðli með Þrótti N A, HK og Stjörnunni. Á laugardeginum var leikin heil umferð og töpuðu stelpurnar okkar fyrir Þrótti og HK enda eru það hvoru tveggja mjög sterk lið með leikmönnum sem sumir hverjir eru farnir að leika með meistaraflokksliðum í 1. deild. Þær stóðu sig samt mjög vel á móti þessum liðum og náðu alveg að stríða þeim svolítið. Leikurinn á móti Stjörnunni tapaðist naumlega 2-1.  Daginn eftir kepptu þær um 5.-7. sæti og þá byrjuðu þær á að vinna Stjörnuna nokkuð örugglega. Síðan spiluðu þær hörkuspennandi leik á móti KA, sem tapaðist með minnsta mögulega mun 2-1 og 16-14 í úrslitahrinunni. Þær enduðu því í 6. sæti af 7 liðum. Liðið óx og dafnaði með hverjum leiknum. Stelpurnar náðu vel saman og voru duglegar að hvetja hver aðra. Þær eru að spila fastar stöður núna í fyrsta sinn á móti og það gekk mjög vel - þær hafa kollinn í lagi!

Guðrún fór með stelpurnar í skautahöllina eftir leikina á laugardeginum, þar var rosa stuð og allir skemmtu sér þrusuvel. Svo var farið á KFC til að fá sér í gogginn. Þær fórum bara snemma upp í skóla og sátu og spjölluðu og fóru í leiki og snemma að sofa. Eftir leiki á sunnudeginum var farið í sund í Árbæjarlaug og svo fengu sér allir ís áður en lagt var af stað heim á leið. Ferðin heim gekk líka mjög vel - allir þreyttir en ánægðir eftir góða helgi.

Takk fyrir stelpur þið stóðuð ykkur súper vel og gaman að kynnast ykkur öllum.

Guðrún og Harpa Nánar

Og enn er karlalið Skells ósigrað

Blak | 16.02.2013

Helgina 9.-10. febrúar héldu meistaraflokkar karla og kvenna hjá Blakfélaginu Skelli á annað mótið af þremur í þriðju deild Íslandsmótsins í blaki. Mótið var haldið á Akranesi, í umsjón Blakfélagsins Bresa. Er skemmst frá því að segja að ferðin gekk vel og árangur liðanna betri en margir þorðu að vona. Að mati þjálfara félagsins hefur orðið framför hjá báðum liðum frá því á mótinu í haust og stóðu allir leikmenn sig vel.

Karlalið Skells gerði sér lítið fyrir og vann alla fjóra leikina sína á mótinu og hélt þar með áfram sigurgöngu sinni frá því á mótinu í haust. Liðið er þegar búið að tryggja sér rétt í úrslitum 3. deildar, um sigur í deildinni sem gefur sæti í 2. deild á næsta tímabili. Þetta er glæsilegur árangur, en þetta er í fyrsta sinn sem karlalið frá Skelli tekur þátt í Íslandsmótinu í blaki.

Kvennalið Skells stóð sig líka vel um helgina og vann fjóra leiki en tapaði tveimur. Með því færðust þær úr 4. sæti riðilsins upp í hið þriðja. Deildin er mjög jöfn og leikirnir eru slík barátta að leikmenn þurfa að nota alla sína orku, bæði andlega og líkamlega. Oftar en ekki enda hrinurnar með minnsta mögulega mun. Þess ber að geta að deildirnar á Íslandsmóti kvenna í blaki eru samtals sex.

Þriðju deildir karla og kvenna eru spilaðar í tveimur riðlum, suðurriðli og austurriðli. Austurriðill er aðallega skipaður liðum af Austurlandi og suðurriðill er með liðum frá Suðvestur- og Vesturlandi og Vestfjörðum. Allir leikir deildanna eru spilaðir á þremur mótum en fjöldi leikja fer eftir liðafjölda í hverjum riðli. 3. deild kvenna suður er skipuð 7 liðum og spiluð er þreföld umferð í riðlinum, samtals átján leikir á lið. Í þriðju deild karla suður eru 4 lið og spila þau fjórfalda umferð, samtals tólf leiki á lið. Tvö efstu liðin í hvorum riðli í hvorri deild, spila svo til úrslita um fyrsta til fjórða sætið í 3. deildum karla og kvenna í sérstakri úrslitakeppni þar sem tvö efstu liðin úr Austurriðlinum taka einnig þátt.

Síðasti hluti riðlakeppninar fer fram dagana 15 og 16 mars í Ásgarði í Garðabæ og úrslitakeppnin í 3. deild karla og kvenna fer svo fram helgina þar á eftir.

Nánar

Frábæru móti lokið

Blak | 26.11.2012 Um helgina, 24. og 25. nóvember var haldin önnur umferð Íslandsmótsins í blaki 4. flokks á Ísafirði. Blakfélagið Skellur sá um allt utanumhald.  Á mótinu voru um 130 manns, leikmenn, þjálfarar og fararstjórar. Níu félög sendu samtals 23 lið á mótið. Óhætt er að segja að allt hafi gengið að óskum. Veðurguðirnir voru okkur hliðhollir og komust allir á mótið og til síns heima á réttum tíma, sem í raun má teljast merkilegt miðað við veðurfar í nóvember.

Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandsmót yngri flokka í blaki er haldið á Vestfjörðum, en boðið er upp á æfingar yngri flokka í blaki á Þingeyri, Suðureyri og Ísafirði. Æfingar fyrir krakka og unglinga hófust í þessum bæjum veturinn 2007-2008 þegar öldungamót var haldið á Ísafirði. Þá byrjuðu einnig æfingar hjá karlaliði Skells.  Í mörg ár fyrir þann tíma var einungis eitt kvennalið að æfa blak undir merkjum Skells á Ísafirði, en þó er löng hefð fyrir öldungablaki á Ísafirði og varð karlalið frá Ísafirði fyrstu Íslandsmeistarar öldunga í blaki á 8. áratugnum.

Mótið um helgina gekk í alla staði vel. Laugardagurinn var langur og strangur og spilað var frá kl. 8:30 til 17:30. Liðin gistu í skólastofum í Menntaskólanum og Hugljúf í mötuneyti MÍ sá um hádegis- og kvöldverð fyrir allan hópinn á laugardeginum. Höfðu margir á orði að þetta væri besti matur sem þeir höfðu fengið á íþróttamóti. Kvöldvaka var haldin í Gryfju MÍ á laugardagskvöldinu og hélt Benni Sig utan um hana til að byrja með og svo var diskótek. Á sunnudeginum var spilað frá kl. 8:30 til 10:45 og síðan var pizzuveisla frá Hamraborg og verðlaunaafhending. Allir þátttakendur fengu að gjöf lítinn platta úr plexígleri með mynd af Vestfjörðum

Stemmningin á mótinu var virkilega góð og krakkarnir skemmtu sér greinilega vel. Margir voru að koma til Ísafjarðar í fyrsta sinn. Leikirnir voru margir spennandi og blakið glæsilegt á köflum. Skellur er með tvö lið í Íslandsmóti 4. flokks:  Skellur A sem spilar í deild með A-liðum pilta og Skellur 1 sem spilar í deild B-liða stúlkna.  Bæði liðin stóðu sig gríðarlega vel, en þetta er í fyrsta sinn sem þau fá að keppa á heimavelli. Á mótinu töldust sumir leikir til Íslandsmótsins en aðrir leikir bara til verðlauna á þessu móti.  Skellur A sigraði sinn riðil á mótinu og er líka í efsta sætinu á Íslandsmótinu.  Skellur 1 lenti í 2. sæti í sinni deild á þessu móti. Deildin sem þau keppa í er stærsta deildin með 10 liðum og er Skellur 1 meðal efstu liða á Íslandsmótinu og mun lenda í efri riðli á lokamótinu á Akureyri í apríl og keppa þar til verðlauna. Skellur sendi einnig eitt lið sem gestalið í deild C-liða og vann það alla sína leiki, enda um sterka leikmenn úr 5. flokki að ræða. Höfrungur var líka með gestalið í deild C-liða sem stóð sig mjög vel.

Mikil vinna var í kringum mótið. Foreldrar sáu um morgunverð og skipulögðu mötuneytismál, stóðu vaktir í Menntaskólanum, héldu utan um kaffisölu á mótinu og skráðu inn úrslit frá leikjum jafnóðum. Meistaraflokks leikmenn dæmdu alla leikina á mótinu. Mótsstjórnin, sem skipuð var yngri flokka þjálfurum félagsins, sá um að setja upp mótið og skipuleggja. Öllum þeim sem lögðu hönd á plóg til að láta þetta mót ganga upp eru færðar bestu þakkir. Einnig eru styrktaraðilum mótsins færðar þakkir, en Íslandssaga styrkti okkur með því að gefa úrvals fisk í fiskmáltíð og Hamraborg styrkti okkur með pizzum. Nánar

Íslandsmót 4. flokks á Ísafirði um helgina

Blak | 22.11.2012 Dagana 24. og 25. Nóvember verður önnur umferð Íslandsmótsins í blaki hjá 4. flokki haldin á Ísafirði. Búast má við um 120 krökkum, þjálfurum og fararstjórum á mótið og er þetta í fyrsta sinn sem slíkt mót er haldið á Ísafirði. Frá blakbænum Neskaupstað koma 30 krakkar með flugi og einnig koma lið frá Akureyri, Grundarfirði, höfuðborgarsvæðinu og Hvolsvelli.

Spilað verður frá 8:30-17:30 á laugardaginn og 8:30-11 á sunnudaginn. Frá Skelli taka tvö lið þátt í Íslandsmótinu í 4. flokki. Annað þeirra keppir í deild A-liða pilta og hit í deild B-liða stúlkna. Bæði liðin standa mjög vel eftir fyrstu umferð Íslandsmótsins í september og eru í efstu sætum í sínum deildum. Til viðbótar verða Skellur og Höfrungur með sitt hvort gestaliðið í deild C-liða.

Heimamenn eru hvattir til að koma í Torfnes og horfa á flotta krakka spila blak. Yngri flokkar Skells verða með kaffisölu og því er tilvalið að kíkja við, sjá bestu 12 og 13 ára blakara landsins og fá sér kaffi og með því.
Nánar

Kórinn 10-11/11

Blak | 16.11.2012 Helgina 10.-11. nóvember fór fram fyrri hlutinn í Íslandsmótinu í blaki, í 3.,5. og 6.flokki. Mótið fór fram í íþróttahúsinu í Kórnum í Kópavogi. Blakfélagið Skellur mætti að sjálfsögðu á svæðið með vaska keppendur, eitt lið í 6 flokki og annað í 5 flokki. Krakkar á þessum aldri spila 4 manna blak og voru tveir skiptimenn í öðru liðinu en vegna veikinda var enginn til skiptanna í hinu. Bæði lið voru blönduð stelpum og strákum, en spiluðu sitt á hvað í strákadeild og stelpudeild. En ekki svo að skilja að það skipti miklu máli á þessum aldri.
Það verður nú ekki sagt að veðrið hafi verið okkur hliðhollt, svona til að byrja með a.m.k. Planið fyrir helgina var á þann veg að flogið yrði suður með seinna flugi á föstudegi, byrjað að spila á laugardagsmorgni. Spilað áfram á sunnudegi og flogið heim með seinna flugi. Föstudagurinn gaf engan grið fyrir flug og ekki var talið ráðlegt að fara akandi í því veðri sem þá var skollið á. Plan D var laugardagsflugvélin og gekk það upp og vorum við komin í borgina um kl tvö.
Sem betur fer var yfirþjálfari Skells búinn að vera í stöðugu sambandi við mótshaldara og var búið að koma málum þannig fyrir að liðin okkar tvö gátu spilað alla þá leiki, sem þau áttu þennan dag, þarna síðdegis. Eftir nokkurra mínútna pásu eftir ferðalagið var arkað inn á keppnisvellina og spilað.
Það sást strax að krakkarnir okkar voru ekki komnir þessa leið til þess að tapa. Enda lauk keppni laugardagsins þannig að allar hrinur unnust, eftir þrjá leiki hjá 6. flokki og tvo leiki hjá 5. flokki.
Þá var skutlast í Hörðuvallaskóla, sem er þarna rétt hjá, og fengin skólastofa til að gista í, dýnur og svefnpokar gerðir klárir. Menn drifu sig í mat í mötuneyti skólans, slöppuðu af í örlitla stund og svo var farið í bíó. Þegar því lauk, má eiginlega segja að flestir hafi fagnað því að komast í pokana.
Morguninn eftir hélt fjörið áfram. Bæði lið voru mætt í íþróttahúsið um kl 9. Bæði lið spiluðu tvo leiki og hjá báðum liðum fór fyrri leikurinn í oddahrinu og bæði lið unnu seinni leikinn 2-0. Eini munurinn var sá að 6. flokkur vann næst síðasta leikinn og þar með alla sína leiki á mótinu, á meðan 5. flokkur tapaði þessum eina leik á mótinu.
Bæði lið standa því mjög vel núna eftir fyrra mótið á Íslandsmótinu, þau eru bæði í efsta sæti í sínum deildum.
Ferðalagið heim var svo eins og best verður á kosið, rjómablíða alla leiðina. Lent á Ísafjarðarflugvelli um hálf sex á sunndegi. Undirritaður var svo heppinn að fá að vera fararstjóri í ferðinni. Vil ég nota tækifærið og þakka fyrir frábæra ferð og skemmtilegan félagsskap. Keppendur stóðu sig svo sannarlega vel og voru sér og félaginu til mikils sóma jafnt innan vallar sem utan.
Nánar

Karlalið Skells ósigrað

Blak | 30.10.2012 Mótið um helgina gekk vel fyrir sig. Margir spennandi leikir voru spilaðir og réðust úrslitin í oddahrinu í fjölmörgum leikjum. Einhver seinkun varð á leikjum vegna þessa, en ekkert sem skipti miklu máli.  Margir kíktu við og horfðu á leiki og lið Skells þakka kærlega fyrir stuðninginn á áhorfendapöllunum. Yngri flokkar Skells sáu um kaffisöluna með miklum myndarbrag og er kaffinefndinni þakkað sérstaklega fyrir vel unnin störf, en nefndina skipuðu þær Anna Kata, Bergþóra og Ingunn.

Karlalið Skells gerði sér lítið fyrir og vann alla sína leiki, þar af tvo í oddahrinu. Ómögulegt var að vita fyrirfram hvernig liðið stæði þar sem þetta er í fyrsta sinn sem keppt er í 3. deild karla á Íslandi. Allir leikmenn stóðu sig vel en nýliðinn Karol Mariusz Maliszewski átti gríðarlega gott mót.  Hann er mikill styrkur fyrir liðið, enda reyndur leikmaður frá Póllandi, sem nú býr á Suðureyri.

Kvennalið Skells stóð í mikilli baráttu enda er 3. deild kvenna mjög sterk og jöfn. Liðið vann þrjá leiki en tapaði þremur og er í 4. sæti eftir þessa fyrstu umferð. Margir leikjanna einkenndust af löngum lotum þar sem varnarleikur margra liðanna er stórgóður og hvert smassið af öðru hirt upp og boltinn gat farið 10-15 sinnum yfir netið fram og til baka. Þá fer úthaldið að skipta máli sem og einbeitingin. Liðið átti mjög góða spretti og ætlar sér að gera enn betur á næsta móti.

Hinn nýi ljósmyndari liðsins hann Maik tók margar skemmtilegar myndir og hafa nokkrar þeirra verið settar á Facebook síðu Skells. Einnig tók Halldór Sveinbjörnsson hjá bb flottar myndir og eru þær komnar undir myndir.
Nánar

Íslandsmót í 3. deild á Ísafirði

Blak | 24.10.2012 Næstkomandi helgi, 27. og 28. október fer fyrsta mótið fram í mótaröð Íslandsmótsins í 3. deild í blaki - Suður- og Vesturlandsriðill. Bæði verður keppt í kvenna- og karlaflokki og á Skellur lið í báðum flokkum. Í 3. deild kvenna eru sjö lið skráð til keppni en fjögur lið í 3. deild karla. Það má því búast við að keppendur verði um 80 talsins og koma liðin frá höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Laugavatni og svo Ísafjarðarbæ. Blakfélagið Skellur hefur undirbúið mótið í samvinnu við Blaksamband Íslands og er Ásdís Birna Pálsdóttir mótsstjóri. Ljóst er að spennandi leikir eru framundan hjá Skellsliðunum og þurfa þau að sýna góða takta til að krækja í hagstæð úrslit. Kvennaliðið spilar sex leiki yfir helgina og karlaliðið fimm. Bæjarbúar eru hvattir til að kíkja við og horfa á skemmtilegt blak og fá sér kaffi og með'í í kaffisölunni á mótinu sem er til styrktar yngri flokkum Skells.
Nánar