Fréttir - Blak

Góður árangur hjá meistaraflokki kvenna í 3. deild Íslandsmótsins

Blak | 27.03.2012 Lokaumferð og úrslitamót Íslandsmótsins í 3. deild kvenna fór fram um síðustu helgi á Álftanesi. Lið Skells náði þeim góða árangri að komast í undanúrslit 3. deildar. Í undanúrslitaleiknum mætti Skellur feiknasterku liði Álftaness sem vann sanngjarnan sigur. Í leiknum um 3. sæti mætti Skellur liði Bresa frá Akranesi og sá leikur var spennandi og gat farið á hvorn veginn sem var. Skellur töpuðu leiknum og enduðu því í 4. sæti 3. deildar, sem verður að teljast mjög góður árangur. 3. deildin hefur styrkst mikið á undanförnum árum og í vetur var einnig spilað í 4. deild Íslandsmótsins og verður stofnuð 5. deild næsta vetur. Nánar

Nýr formaður Skells

Blak | 27.03.2012 Aðalfundur blakfélagsins Skells var haldinn þann 18. mars síðastliðinn. Þar bar helst til tíðinda að Sigurður Jón Hreinsson var kosinn formaður og tók við af Hörpu Grímsdóttur. Skýrslu fráfarandi formanns fyrir síðasta ár má sjá hér að neðan. Nánar

Aðalfundur Skells 2012

Blak | 07.03.2012

Blakarar og blak-krakkaforeldrar í Ísafjarðarbæ athugið

Aðalfundurfundur Blakfélagsins Skells verður haldinn sunnudaginn 18 mars 2012 kl. 17.30
í salnum á efri hæð Íþróttahússins á Torfnesi

Dagskrá fundarins:
• Hefðbundin aðalfundarstörf
o skýrslur stjórnar
o kosning í stjórn
o kosning í krakkablaksráð
• Önnur mál


Foreldrar og félagar eru hvattir til að fjölmenna.

Stjórnin.

Nánar

Blakæfingar komnar í fullan gang

Blak | 06.01.2012 Blakfélagið Skellur óskar iðkendum sínum og velunnurum gleðilegs nýs árs og þakkar fyrir það liðna.

Blakæfingar eru nú komnar í fullan gang skv. áætlun. Fyrsta yngri flokka æfingin er í dag, föstudag kl. 15:00 í íþróttahúsinu Torfnesi. Sjá má á æfingatöflunni hvenær æfingar eru.
Nánar

Skemmtileg jólamót hjá börnum og fullorðnum

Blak | 21.12.2011 Yngri flokkar
Jólamót Skells fyrir yngri flokka var haldið sunnudaginn 18. desember. Það tókst í alla staði mjög vel og vonandi hafa allir farið ánægðir heim. Rúmlega 60 þátttakendur voru á mótinu frá Þingeyri, Suðureyri og Ísafirði. Börnin í boltaskóla HSV hafa verið í blaki síðustu vikur og mættu þau einnig á mótið.

Elstu krakkarnir (3. og 4. flokkur) byrjuðu og kepptu þar tvö lið frá Höfrungi og tvö frá Skelli. Þingeyrarliðin kepptu við Skellsliðin og vann Stekkjastaur, A-lið Höfrungs, allar sínar hrinur - enda öflugir krakkar og miklir íþróttamenn. Í stað þess að láta Höfrung keppa innbyrðis og Skell innbyrðis var ákveðið að draga í blönduð lið fyrir síðasta leikinn.

Í 5. flokki kepptu þrjú lið frá Skelli, eitt frá Suðureyri og tvö frá Ísafirði.  Þau kepptu undir nöfnum Pottaskefils, Skyrgáms og Hurðaskellis. Allir leikirnir voru jafnir og spennandi en Hurðaskellir hlaut flest stig.

Einn leikur var spilaður í 3. stigi á milli Höfrungs og Skells.

Krakkarnir í 1.- 4. bekk hjá íþróttaskóla HSV spiluðu krakkablak á 1. og 2. stigi við yngri krakkana frá Þingeyri og líka innbyrðis. Það var frábært að sjá hvað krakkarnir í íþróttaskólanum eru búnir að ná góðum tökum á krakkablaki á stuttum tíma. Og það er stórkostlegt blakstarf sem fer fram á Þingeyri undir stjórn Guðrúnar Snæbjargar.

Í lok mótsins fengu allir krakkarnir húfur merktar blakfélögunum.

Fullorðnir:
Jólamót fullorðinna var haldið fimmtudagskvöldið 15. desember og var keppt í 4-5 manna liðum. Liðin voru 5 talsins og var spilað á tíma í þetta sinn. Hver leikur var tvisvar sinnum 12 mínútur. Það lið sem skoraði flest stig í heildina sigraði. Mótið var sérlega jafnt og munaði bara örfáum stigum á liðunum. Baráttan var mikil og ekki alltaf að sjá á að um innanfélagsjólamót væri að ræða - enda á alltaf að taka á því þegar blak er spilað :-)  Liðið Gáttaþefur sigraði.
Nánar

Hurðaskellur - mót yngri flokka

Blak | 17.12.2011 Sunnudaginn 18. desember verður jólamót Skells haldið. Mótið er fyrir alla krakka sem æfa blak hjá Skelli bæði á Suðureyri og Ísafirði og einnig mun Höfrungur frá Þingeyri mæta á mótið. Þar að auki koma krakkarnir úr íþróttaskóla HSV en þau hafa einmitt verið í blaki í boltaskólanum síðustu vikurnar.

Krakkarnir eru beðnir um að mæta sem hér segir:

Þau sem eru í 3. og 4. flokki eiga að vera mætt inn í sal í fötunum kl. 11
Þau sem eru í 5. flokki eiga að mæta kl. 12
Krakkar í 3. og 4. bekk í íþróttaskólanum eiga að mæta kl. 12
Krakkar í 1. og 2. bekk í íþróttaskólanum eiga að mæta kl. 14

Mótsgjald er kr. 700 og greiðist á staðnum. Inni í því er glaðningur fyrir alla og piparkökur og djús. Krakkarnir eru beðin um að koma í jólalegum fötum, t.d. rauðum eða grænum bolum.  Nánar

Ferð 3. flokks á Íslandsmót

Blak | 22.11.2011 Hérna eru frekari upplýsingar um ferðina næstu helgi:

Kostnaður á mann er kr. 9000 sem á að leggjast inn á reikning krakkablaksins:  0156-05-65049, kt. 471204-3230 í síðasta lagi á miðvikudag.

Þetta dekkar mótsgjöld, gistingu og mat á meðan á mótinu stendur og flugfarið. Ekki mögulega afþreyingu og mat á föstudagskvöldinu.

Foreldrar eru beðnir um að senda börnin með eitthvað sem hægt er að nota sem íþróttahúss-nasl til að deila með sér yfir mótsdagana. Þetta geta verið ávextir eða eitthvað bakkelsi. Einhverjir gætu t.d. komið með 4 epli, eða appelsínur eða banana sem ég mun skera niður fyrir þau, eða heimabakað muffins, skúffuköku eða skinkuhorn.

Okkur vantar líka a.m.k. einn bíl til að skutla af flugvelli og á flugvöllinn á sunnudeginum. Eiga ekki einhverjir afa/ömmur, frænkur/frænda eða systkin í Reykjavík sem gætu gert þetta? Harpa verður á bíl og líka Auður en það vantar einn til.

Þau eru 10 sem fara, 7 stelpur og 3 strákar sem koma úr 4. og 5. flokki. Þeir eru teknir með til að spila upp í liðinu, en það þýðir að þeir eiga að taka bolta númer 2 og koma honum á stelpurnar sem smassa yfir netið. Þau eru í fyrsta sinn að spila 6 manna blak og spilið gengur miklu betur þegar við fáum strákana til að hjálpa okkur í þessu hlutverki og þannig fá stelpurnar líka miklu meira út úr þessu.

Dagskráin er þá u.þ.b. svona:

Föstudagur 25. nóvember:
Mæting út á flugvöll á Ísafirði stundvíslega kl. 15:45
Lending í Reykjavík kl. 17:00
Keyrt í mat og bíó ef það verður ákveðið (vantar 1 bíl)
Keyrt upp í skóla í Mosfellsbæ eftir það. (selflutningur eða skutl frá vinum/ættingjum)

Laugardagur 26. nóvember:
Við eigum tvo leiki þennan dag: kl. 11:15 og 14:15.
Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður í skólanum
Við munum horfa á leiki hinna liðanna og vera á mótinu mest allan daginn
Reiknum með að komast í sund
Kvöldinu eytt í skólanum

Sunnudagur 27. nóvember:
Við eigum 3 leiki þennan dag, kl. 9:00, 9:45 og 12:45 og svo er líka umsjón kl. 10:30 - semsagt mjög stíft.
Morgunverður og hádegisverður í skólanum
Mæting í flug kl. 14:45, Best að leggja af stað kl. 14 frá íþróttahúsinu. (Vantar a.m.k. 1 bíl)
Lending á Ísafirði kl. 15:55

Taka með:
Svefnpoka
Kodda
Dýnu
Lak
HSV-upphitunargalla
Hnéhlífar
Skó
Sundföt
Handklæði
Aukaföt og snyrtidót
Vasapening 3000 ef það verður ákveðið


Svo þarf að ákveða hvort plan B sé að fá rútu og keyra ef ekki verður flogið á föstudaginn
Nánar

3. flokkur í Mosó

Blak | 21.11.2011 Næsta verkefni hjá Skelli er ferð 3. flokks á fyrri hluta Íslandsmóts 2. og 3. flokks í blaki sem haldið verður í Mosfellsbæ helgina 26.-27. nóvember. Búið er að setja upp mótið og má skoða leikina á www.krakkablak.bli.is. Þar verður einnig hægt að fylgjast með úrslitum leikja jafnóðum. Líklega verður farið með flugi og verið er að ganga frá miðunum í dag, eftir það kemur endanlega í ljós hvað ferðin mun kosta.
Gist verður í grunnskóla í Mosfellsbæ og matur mótsdagana er innifalinn í mótsgjöldum. Krakkarnir þurfa að taka með sér:

HSV-upphitunargallann
Hnéhlífar
Blakskóna
Vatnsbrúsa
Dýnu
Sæng eða svefnpoka og kodda
Lak
Aukaföt

Upplýsingar um vasapeninga og nesti koma fljótlega.
Þjálfari í ferðinni verður Auður Rafnsdóttir og fararstjóri Harpa Grímsdóttir (8430413) Nánar

Vel heppnuð ferð á Íslandsmót í Neskaupstað

Blak | 15.11.2011 Um síðustu helgi (11.-13. nóv) var fyrri hluti Íslandsmótsins í 4. og 5. flokki haldinn í Neskaupstað. Skellur sendi fjögur lið á mótið og var flogið til Reykjavíkur, þaðan til Egilsstaða og síðan tókum við rútu til Neskaupstaðar. Við vorum heppin með veður og ferðin gekk eins og í sögu.

Öll fjögur liðin sem við sendum á mótið að þessu sinni eru feikna sterk. Þetta eru krakkar sem flest eru búin að æfa í nokkur ár og hafa náð góðum tökum á blakinu. Í stuttu máli þá er liðið okkar í 4. flokki í þriðja sæti meðal A-liða drengja eftir þetta mót, Skellur 1 í 5. flokki eru í 2. sæti meðal A-liða drengja og Skellur 3 í 5. flokki í 4. sæti í sömu deild. Liðið Skellur C er í 2. sæti meðal C-liða drengja. Hér að neðan er nánari umfjöllun um mótið.

Öll lið Skells voru að þessu sinni skráð sem drengjalið. Reglurnar eru nefnilega þær að ef tveir eða fleiri strákar eru í liði skal skrá það sem drengjalið. Við höfum skipt niður í lið óháð kyni því á þessum aldri er ekki sérstakur munur á getur stráka og stelpna í blaki, og voru tveir til þrír strákar í hverju liði.

Lið Skells í 4. flokki var skipað Telmu Rut og Kjartani Óla sem eru þau einu í blakinu hjá okkur sem eru á þeim aldri að vera í 4. flokki. Liðsfélagar úr Skelli 1 í 5. flokki spiluðu með þeim, þau Birkir, Bjarni Pétur, Auður og Ívar Tumi. Liðið spilaði í deild A-liða drengja, en A-lið og B-lið voru sameinuð í þessari deild. Fyrsti leikurinn var erfiður því hann var á móti feiknasterku A-liði HK sem var eins og af annari plánetu en önnur lið þarna. Hvert stig sem vannst í þeim leik var í raun sigur. Síðan vann Skellur B-lið HK og Þróttar Nes. Þar sýndu okkar krakkar fína takta, börðust vel og áttu sterkar sóknir inn á milli. Síðasti leikurinn var á móti A-liði Þróttar Nes sem eru allt strákar á eldra ári í 4. flokki. Grímur, pabbi Hörpu þjálfar það lið og má því segja að Birkir hafi verið að spila á móti afa sínum og Harpa á móti pabba sínum. Þessi leikur varð besti leikur beggja liða á mótinu. Skellur sýndi mikla baráttu og útsjónarsemi og náði að ógna sterku liði Þróttar verulega þótt leikurinn tapaðist 2-0.

Liðið Skellur 1 í 5. flokki var skipað þeim Bjarna Pétri, Birki, Ívari Tuma og Auði sem hafa spilað saman blak frá því í 2. bekk. Þetta lið hefur orðið Íslandsmeistari tvisvar, fyrst í deild C-liða og í fyrra í deild A-liða ásamt Kjartani Óla - í bæði skiptin eftir „blóðuga“ baráttu við A-lið Aftureldingar. Að þessu sinni vann liðið alla sína leiki nokkuð auðveldlega, nema gegn Aftureldingu þar sem oddahrinan tapaðist. Leikurinn á móti Aftureldingu var annar leikur liðsins á mótinu og einkenndist hann af mikilli baráttu en of mörgum mistökum hjá okkar mönnum - sennilega eitthvað stress í gangi. Í síðustu tveimur leikjum liðsins á mótinu smullu þau vel saman og náðu sókninni á strik, og þegar þessir krakkar eru í þeim ham sem þau voru þá, er ekkert lið á þeirra aldri á landinu sem stenst þeim snúning. Það verður því tekið á því í vor þegar enn eitt uppgjörið við sterkt og baráttuglatt lið Aftureldingar mun eiga sér stað!

Liðið Skellur 3 í 5. flokki var skipað þeim Hrefnu, Ágústi og Ólínu frá Suðureyri, og Birtu Rós og Bensa frá Ísafirði. Einnig spilaði Katla einn leik með liðinu. Liðið hefði í raun átt að spila í deild B-liða, en hún var ekki til staðar í drengjaflokki að þessu sinni. Þá var ekkert annað að gera en að spila við A-liðin og krakkarnir sýndu að þar eiga þau heima. Þau náðu mörgum góðum leikjum og unnu spræka stráka í A-liði Stjörnunnar. Leikmenn liðsins eru tæknilega góðir og hafa náð góðum tökum á smassi og uppgjöfum, en stundum vantar hreyfanleika og verður unnið með það á æfingum hjá þeim í vetur.

Liðið Skellur C í 5. flokki var skipað þeim Krzysztof, Kötlu, Ingibjörgu og Karólínu frá Suðureyri og Hafsteini frá Ísafirði. Þau spiluðu 3. stig en í því stigi þarf liðið að snerta boltann þrisvar áður en hann fer yfir netið og annar bolti er gripinn. Þetta lið er mjög sterkt í 3. stigi og þau unnu alla sína leiki í riðlinum á laugardeginum. Þau kepptu til úrslita við Lið Dímons á sunnudagsmorgni en sá leikur tapaðist 2-0.  Á næsta móti munu þau spila 4. stig sem er venjulegt blak, og þá er bara að vinna Dímon líka!

Farið var í sund í Neskaupstað bæði á föstudeginum og laugardeginum og var stóra rennibrautin þar mikið notuð. Á laugardagskvöldinu var diskótek í skólanum. Eitt af því skemmtilega við þessi mót er að öll aðkomulið gista saman í skólum og krakkarnir kynnast krökkum í hinum liðunum. Við vonumst til þess að fá svona mót hingað til Ísafjarðar einhvern tímann - vonandi strax næsta haust.  Nánar

Breytt dagsetning Íslandsmóts og breyting æfingatíma yngri flokka á Ísafirði

Blak | 05.10.2011 Íslandsmótið fyrir 4.-5. flokk sem vera átti 4.-6. nóvember verður 11.-13. nóvember í staðinn. Mótið er í Neskaupstað.

Miðvikudagsæfingar yngri flokka á Ísafirði hafa verið færðar yfir á föstudaga kl. 15-16. Þetta tekur gildi 3. október og er í kjölfar breyttrar töflu í Torfnesi eftir að fótboltinn kemur inn. Nánar