Fréttir - Blak

Öldungamót og ársþing BLI 27-30 apríl

Blak | 12.05.2022
Gullkarlarnir
Gullkarlarnir
1 af 4

Dagana 28-30 apríl fór fram öldungamót BLI í blaki. Loksins, eftir 3ja ára bið, en velþekktur heimsfaraldur hafið komið í veg fyrir það árin 2020 og 2021.
Liðsmenn Vestra mættu þangað galvaskir með lið í karla og kvennaflokki, en bæði liðin kepptu undir hinu fornfræga Skells-nafni. Í kvennaflokki var keppt samtals í 13 deildum og í 7 deildum í karlaflokki.
Kvennaliðið keppti í 7 efstu deildin. Eftir nokkuð jafna keppni urðu úrslitin þau að Skellskonur unnu 3 leiki og töpuðu öðrum 3 og luku keppni í 5 sæti í deildinni.
Karlaiðið keppti í 4 deild og eftir hvern háspennuleikinn af öðrum, fóru leikar svo að liðið fór taplaust í gegnum mótið og tók gullið. Sannarlega hressandi endurkoma, en flestir leikmenn liðsins höfðu ekki æft mikið undanfarið, en á móti kom að tveir liðsmenn úrvalsdeldarliðs Vestra spiluðu með liðinu og löguðu þannig meðaltal liðsins verulega.
Kvöldið áður en öldungamótið hófst hélt Blaksamband Íslands ársþing sitt, sem var það 50 í röðinni. Ársþingið er jafnframt uppskeruhátíð Úrvalsdeildar og eru þar veitt verðlaun og viðurkenningar fyrir árangur vetrarins. Þar voru úrvalslið leiktíðarinnar kynnt og veitt verðlaun til einstaklinga vegna árangurs í Úrvalsdeildum karla og kvenna. Bestu og efnilegustu leikmenn voru útnefndir ásamt dómara ársins og sérstök félagsverðlaun voru afhent fyrir umgjörð leikja. Það eru þjálfarar og fyrirliðar félaganna í Úrvalsdeild sem kjósa í rafrænni kosningu ár hvert og var árangur liðsmanna Vestra eftirtektarverður.
Efnilegustu leikmenn Úrvalsdeildar.
Í kvennaflokki var Sóldís Sóldís Björt Leifsdóttir Blöndal tilnefnd, en hún fór frá Vestra I haust og yfir í HK
Og í karlaflokki var það Karol Duda hjá Vestra.
Juan Manuel Escalona, hjá Vestra fékk verðlaun fyrir að vera stigahæstur í uppgjöfum.
Og Carlos Rangle Vestra var kosinn í úrvalslið karla fyrir veturinn 2021-22.
Liðsmenn Vestra komu því heim hlaðin verðlaunum, eftir þessa 4 daga og sannarlega lofsverður árangur hjá litla klúbbinum okkar.

Nánar

Árið 2021

Blak | 21.04.2022
Draumalið Kjörísbikarsins 2021
Draumalið Kjörísbikarsins 2021
1 af 7

Aðalfundur Blakdeildar Vestra, 21 apríl 2022

Skýrsla formanns

Ágætu félagar.

Árið 2021 var óumdeilanlega enn eitt metárið hjá Blakdeild Vestra.  Töluverð starfsemi í yngri flokkum félagsins og hjá meistaraflokkum félagsins voru áskoranirnar stærri en áður hafa sést. Þá var strandblak mikið stundað og allt þetta á sama tíma og heimsfaraldur Covid19 gerði allt starf svo til óvinnandi.

Það er því vel við hæfi að halda í þann góða sið að segja síðasta ár hafa verði það besta í sögu deildarinnar hingað til.

 

Iðkendur

Á síðasta ári urðu óverulegar breytingar á starfsemi félagsins og iðkendafjöldi í heildina nokkuð svipaður og árin á undan. 

Í vetur hefur blakdeildin haldið úti æfingum, á Suðureyri, Ísafirði og í Bolungarvík, sem er sama og veturna á undan.

Stærstur hluti iðkenda, ungir sem aldnir, hafa verið hluti af okkar hóp í allnokkur ár og er sérstaklega ánægjulegt að sjá krakkana okkar yngja upp og efla meistaraflokksliðin.  Þá hafa verið hjá okkur í vetur nokkrir erlendir leikmenn.  Að meðtöldum þjálfaranum okkar, þá hafa fimm erlendir leikmenn spilað með karlaliðinu í vetur, Juan, Carlos og Antonio hafa verið hjá okkur í allan vetur.  Kevin var fyrstu tvo mánuði tímabilsins og svo var Eduardo með okkur síðustu tvo og hálfan mánuðinn.

 

Þjálfaramál

Haustið 2020 tók Juan Escalona við starfi aðalþjálfari blakdeildar Vestra.  Auk þess að þjálfa alla flokka í blaki er hann leikmaður í úrvalsdeildar-karlaliði Vestra og sannarlega betri en enginn. 

Síðasta vor var skrifað undir tveggja ára samning við Juna og  eru því útlitið ágætt hjá okkur hvað það varðar.

Þess má geta að á ársþingi BLI sem haldið var í byrjun júní, var Juan útnefndur þjálfari ársins í úrvalsdeildinni, en fulltrúar allra liða í deildinni tóku þátt í atkvæðagreiðslunni.

 

Meistaraflokkar

B-kvennaliðið Vestra keppir í 5. Deild, sem er næst neðsta deild Íslandsmóts kvenna.  Það lið samanstendur aðallega af reynslumiklum blökurum en einnig nokkrum ungum stelpum.  Þessi deild er spiluð í túnneringum og eru þá þrjár yfir tímabilið.  Vegna Covid var ekkert spilað í þeim deildum sem spila í mótafyrirkomulagi á tímabilinu 2020-21.  Nýliðið tímabil lukkaðist hinsvegar mun betur og nú tókst að halda öll þrjú mótin.  Fyrsta mótið var haldið fyrstu helgina í nóvember og stóðu stelpurnar okkar sig alveg hreint stórkostlega, fóru taplausar í gegnum það mót og stóðu því vel að vígi fyrir annað mótið sem fór fram í lok febrúar 2022.

Síðasta haust skráðum við B-lið í karlaflokki, þar sem við höfum verið með mjög stórann hóp af ungum strákum.  Það lið var skráð í 3ju deild og spilaði því með túnneringa fyrirkomulagi.  Fyrsta mót vetrarins fór fram fyrstu helgina í nóvember og stóðu strákarnir sig ágætlega unnu tvo leiki en töpuðu þremur.  Örlögin höguðu því svo þannig að liðið komst ekki á annað mótið sem fór fram í lok febrúar, þar sem nánast allir strákarnir lögðust í Covid á einungis rúmri viku.

Vorið 2021 lauk karlaliðið sitt annað tímabil í úrvalsdeildinni í blaki.  Leikmannahópurinn er trúlega einn sá minnsti í deildinni, en í grunninn hefur hópurinn verið 7-8 leikmenn síðasta tímabil sem og þetta sem nú er ný lokið, þar af eru fjórir þeirra spænskumælandi sem við lokkuðum til okkar.  Heildar hópurinn er samt töluvert stærri eða um 20 manns en stór hópur af ungum strákum eru  farnir að máta sig við úrvalsdeildarliðið. 

Covid hafði einnig áhrif á karlaliðið tímabilið 2020-21, þar sem leikir hliðruðust og í lok tímabilsins varð að fella niður nokkra leiki, til að ná að ljúka tímabilinu með úrslitakeppni.  Því miður fyrir okkur féllu bara niður heimaleikir hjá okkur, en engu að síður lauk deildinni þannig að Vestri sat í 5 sæti.  Vegna þess að ekki náðist að klára deildina, var úrslitakeppnin útvíkkuð þannig að öll liðin tóku þátt í henni.  Vestri spilaði í 8 liða úrslitum við Aftureldingu, tvo leiki og vann þá báða en mættu þá stórliði Hamars og datt þá úr keppni.  En niðurstaðan að enda í 3-4 sæti er í öllu falli glæsileg.

Karlalið Vestra komst einnig á úrslitahelgi Kjörísbikarsins 2021, sem er stærsti viðburður í blaki á Íslandi ár hvert.  Í fjögura liða úrslitum spilaði Vestri á móti Hamri, en varð að lúta í lægra haldi fyrir þeim, en Hamar náði þeim einstaka árangri á síðasta tímabili að tapa ekki leik.  Engu að síður er 3-4 sæti í Kjörísbikarnum mjög góð niðurstaða fyrir ekki stærri klúbb.

Nýtt tímabil hófst svo um í byrjun september hjá liðinu.  Tímabilið fór ílla af stað hjá okkar mönnum, en fyrstu 4 leikirnir töpuðust.  Ástandið lagaðist þó heldur eftir því sem leið á og um áramót hafði liðið unnið 4 leiki og tapað 5 leikjum og stóð því ca í miðri deild.

 

Öldungaflokkar

Af öldungablaki hafa verið litlar fréttir, en öldungamóti BLI, sem vera átti í Vestmanneyjum í maí 2020 var aflýst vegna Covid.  Reyna átti aftur vorði 2021 en það fór eins, aflýst.  En núna í næstu viku verður loks blásið til Öldungamóts og mæta þar karla og kvennalið frá okkur.

Konurnar hafa þrátt fyrir þennan mótbyr, staðið vaktina með æfingum í kvennaliðinu.  Karlahópurinn er hinsvegar farinn að þynnast talsvert, þar sem einhver feimni er í mönnum að mæta á æfingar með úrvalsdeildarliði og er orðið mjög nauðsynlegt að finna einhverja leið út úr þeirri þróun, því öldungaflokkarnir eru mjög mikilvægir fyrir félagið, félagslega upp á stærð félagsins, út frá lýðheilsusjónarmiði og ekki síður fjárhagslega.  Því verður að teljast mikilvægt að finna leið til að efla þennan hóp aftur.

 

Yngri flokkar

Það má alveg segja að Covid hafi farið sérstaklega ílla með yngri iðkendur og yngri-flokkamótin.  Tímabilið 2020-21 sendi Vestri bara yngriflokkalið á eitt blakmót.  Það var bikarmót sem haldið var á Akureyri helgina 19-21 febrúar.  Fá Vestra fóru 15 leikmenn og spiluðu þau sem U15 drengja lið og eitt U15 blandað gestalið. gekk þeim ágætlega, unnu nokkra leiki og töpuðu nokkrum. 

Þá sendi Vestri nokkur lið á yngriflokkamót sem fram fór í Mosfellsbæ helgina 29-31 október, en alls fóru 19 krakkar á mótið.  Á mótinu var Vestri með lið í eftirfarandi flokkum; U16 piltar, U12stúlkur A og B líð og svo blönduð lið með fleiri félögum í U14 stúlkur og U12 strákar.

 

Landsliðsmenn félagsins

Starf landsliðana var í lágmarki framan af ári, en hófst svo af fullum krafti með haustinu.  Það er ekki hægt að segja annað en að Vestri hafi komið vel út úr landsliðsvali haustsins.

Í október spiluðu U17 landsliðin á norður-Evrópu mótinu sem haldið var í Ikast í Danmörku.  Þar áttum við fulltrúa í báðum liðum, Sverrir Bjarki í stráka liðinu og Sóldís Björt í stúlkuliðinu.  Stúlkuliðið stó sig stórkostlega og hirti gullverðlaunin á mótinu en strákarnir töpuðu leiknum um bronsið.  Þar var Sóldís valin í lið mótsins  og jafnframt valin verðmætasti leikmaður mótsins (MVP).

Í lok október kepptu U19 landsliðin á NEVZA mótinu sem fram fór í Rovaniemi í Finnlandi.  Þar voru þau Sóldís í stúlku liðinu og Sigurður Bjarni í stráka liðinu.

Þá voru að lokum þau Hafsteinn Már og Sóldís valin í æfingahópa A-landsliðana fyrir leiki sem fara áttu fram í lok desember 2021, en vegna Covid var þeim mótum frestað.

Það er rétt að taka það fram að Sóldís gekk í raðir HK í haust, en hún hóf að æfa blak með Vestra (Skell) þegar hún var aðeins 6 ára.  Árangur hennar er jafnvel ennþá eftirtektarverðari þegar horft er til þess að kvennalið Vestra, sem hún var þá í, spilaði aðeins á einu æfingamóti allt tímabilið 2020-21.

 

Fjárhagur og fjáraflanir

Fjárhagur félagsins hefur í aðalatriðum verið ásættanlegur undanfarin ár en hefur verið nokkuð sveiflukenndur.  Árið 2019 var til að mynda erfitt fjárhagslega en árið 2020 slapp reksturinn réttu megin við núllið.  Afkoma ársins 2021 er hinsvegar frekar slæm á okkar mælikvarða, en tap deildarinnar á síðasta ári er nálægt 2,5 milljónir króna.

Ferðakostnaður keppnisliða er vaxandi viðfangsefni auk hækkandi húsnæðiskostnaðar vegna innfluttra leikmanna.  Áfram þarf að efla tekjustofna félagsins á komandi misserum en áform um að ná fleiri styrktarsamningum við fyrirtæki hafa því miður ekki gengið eftir til þessa.

Fjáraflanir hafa til þessa verið nokkuð hefðbundnar, en nánast útilokað var á síðasta ári að ganga í hús hjá íbúum, vegna sóttvarnarsjónarmiða. Ein sölufjáröflun hefur farið fram á þessum vetri og var það núna í apríl.

Þá hefur félagið tekið þátt í fjöruhreinsun í Skutulsfirði og einnig hreinsun á Eyrinni í Skutulsfirði.

Vegna Covid féllu hinsvegar út nokkuð mikilvægar fjáraflanir, en þannig hefur td gæsla í kringum Aldrei, oft skilað ágætum tekjum.  Einnig hafa fallið út mót sem halda átti hérna fyrir vestan og hefðu skipt okkur talsverðu máli rekstrarlega.

Einn nýr tekjupóstur kom upp í hendurnar á okkur á síðasta ári og aftur núna á þessu, en það var sú staðreynd að karlaliðið komst á úrslitakeppni Kjörísbikarsins.  Á síðasta ári náðum við að skrapa inn einhvað rúmar 200 þúsund með sölu á auglýsingum á viðburðinum og okkar hlut í miðasölu, en tölurnar fyrir þetta ár eru umtalsvert betri.  Þetta er samt tekjupóstur sem ekki er gott að treysta á.

 

Strandblak

Frá því að framkvæmdum lauk við strandblakvöllinn í Tungudal, hefur verið hægur stígandi í iðkun strandblaks í Skutulsfirði.

Á síðasta sumri var í fyrsta skipti skipulagt starf í kringum strandblakið en Antonio okkar, var hér á landi fram undir lok júní og sá um æfingar nokkrum sinnum í viku á meðan hann var til staðar. Félagsmenn eru duglegir að nýta sér sandinn, sérstaklega ungu strákarnir, og hafa verið að mæta á stöku stigamót í Íslandsmótaröðinni. 

 

Lokaorð

Ég vill þakka félagsmönnum fyrir stórkostlegt en jafnframt erfitt ár 2021. Að minnsta kosti reyndi það töluvert á þann sem þetta skrifar.

Árangur ársins, ef hann er mældur út frá verðlaunum og sætum, er eftirtektarverður satt að segja.  3-4 sæti í Íslandsmótinu og Bikarkeppninni er nokkuð gott.  Áður hefur verið nefnt að Juan var valinn þjálfari ársins í úrvalsdeild fyrir tímabilið 2020-21.  Fyrir sama tímabil var Hafsteinn Már valinn efnilegasti leikmaðurinn í karlaflokki, auk þess að hafa verið valinn í draumalið Úrvalsdeildar og draumalið Kjörísbikarsins.  Og Hafsteinn var svo kjörinn Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2021, en þá viðurkenningu má blakdeild Vestra svo sannarlega eigna sér að miklu leiti.

Það er því ástæða til bjartsýni og það eru spennandi áskoranir framundan og mikið af efnilegum iðkendum hjá félaginu.  Ég held engu að síður að nú sé ágætis tími til að leggja línur fyrir framhaldið, meta stöðuna og þétta raðirnar.

 

Takk fyrir mig.

Sigurður Hreinsson

Nánar

Aðalfundur blakdeildar Vestra 2022

Blak | 14.04.2022

Samkvæmt lögum deildarinnar er dagskrá eftirfarandi á hefðbundnum aðalfundi:

 1. Fundarsetning.
 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 3. Formaður blakdeildar gerir grein fyrir starfssemi deildarinnar á liðnu starfsári.
 4. Gjaldkeri blakdeildar leggur fram til samþykktar og gerir grein fyrir reikningum deildarinnar sem staðfestir hafa verið af kjörnum skoðunarmanni og gjaldkera aðalstjórnar.
 5. Reglugerðabreytingar.
 6. Kosningar:
 7. a) Kosinn formaður deildar til eins árs.
 8. b) Kosið í meistaraflokksráð; oddviti til eins árs, einn aðalmaður til tveggja ára og einn varamaður til eins árs.
 9. c) Kosið í yngriflokkaráð; oddviti til eins árs, einn aðalmaður til tveggja ára og einn varamaður til eins árs.
 10. Önnur mál.

Félagar og foreldrar eru hvattir til að fjölmenna.

Nánar

Spennan magnast í blakinu.

Blak | 21.03.2022
1 af 2

Nú er farið að líða að lokum á þessu keppnistímabili í blakinu. 

Þriðja og síðasta “túnneringin” er í neðri deildunum Íslandsmótsins verður haldið núna um næstu helgi. Kvennalið Vestra í blaki keppir í 5 deild og er eftir fyrstu tvö mótin í efsta sæti deildarinnar ásamt tveimur öðrum liðum, með 21 stig.  Í síðasta mótinu er deildinni skipt í efri hluta og neðri hluta, öll stig núlluð og spilað í A og B úrslitum.  Konurnar spila síðasta mótið á Akureyri og verður fróðlegt að sjá hvernig þessi skemmtilega blanda ungra stúlkna og eldri blakara klárar lokasprettinn á keppnistímabilinu.

Í karlaflokki eru tvö lið skráð frá Vestra á Íslandsmótinu.  A-liðið er í harðri baráttu í úrvalsdeildinni og einnig er skráð lið í 3ju deild, sem að mestu er skipað strákum á aldrinum 14-16 ára.  B-liðið stóð sig vel á fyrsta mótinu sem haldið var í haust í Kópavogi, en í vetur þegar annað mótið var haldið lá nánast allt liðið í Covid og komst því ekki.  Liðið keppir því í B-úrslitum í 3ju deild, en keppnisfyrirkomulagið er það sama og rakið var hér fyrir ofan hjá 5.deild kvenna.  Loka mótið í 3ju deild karla er að þessu sinni haldið á Ísafirði helgina 26-27 mars og hvetjum við heimafólk til að koma og hvetja strákana okkar.

Þess má geta að B-liðið keppti á yngriflokkamóti fyrr í vetur, þar sem það fór með sigur af hólmi og landaði Kjörísbikartitlinum í aldursflokki U16.

Og talandi um Kjörísbikar.  Karla-A-lið Vestra í blaki er komið á úrslitahelgi kjörísbikarsins, 4 liða úrslit. Annað árið í röð, en Þróttur Vogum kom í heimsókn helgina 12 og 13 mars sl, þar sem spilað var í Úrvalsdeildinni á laugardeginum og í Kjörísbikarnum á sunnudeginum.  Skemmst er frá því að segja að báða leikina unnu heimamenn í Vestra, 3-1 og með því tryggðu Vestra-menn sig í 4-liða úrslitahelgi.  Undirbúningur er nú á fullu fyrir bikarúrslitahelgina, en gaman væri ef Vestra-fólk hvar sem það er á landinu myndi fjölmenna í Digranesið í Kópavoginum og hvetja liðið gegn sterku liði KA á föstudagskvöldinu 1 apríl kl 20:00.  Frekari upplýsingar koma bráðlega um miðasölu, en hægt á að vera að styrkja Vestra með kaupum á miðum á leikinn.  Einnig er félagið þessa dagana að selja auglýsingar sem munu birtast á LED skiltum umhverfis völlinn á úrslitahelginni.  Þess má geta að úrslitaleikurinn fer fram sunnudaginn 3 apríl og hefst hann kl 13:00.

Þá er spennan í úrvalsdeildinni að magnast verulega þessa dagana.  Amk spennan um hvaða lið lendir í 4 sæti í deildinni og tryggir með því sæti í úrslitakeppni deildarinnar.  Á síðustu helgi kom Fylkismenn í heimsókn vestur og spiluðu tvo leiki í úrvalsdeildinni, tvo síðustu heimaleiki Vestra í deildinni þetta tímabilið.  Það voru hörkuleikir báðir, þar sem lið gestanna hélt heimamönnum vel við efnið allann tímann.  Úrslitin urðu engu að síður þau að Vestri vann báða leikina 3-0.  Á sama tíma spilaði KA á móti Aftureldingu  í Mosfellsbæ þar sem heimamenn lönduðu einnig sigri í báðum leikjumum.  Vegna þessa komst Vestri upp fyrir KA og upp í 4. sætið í Úrvalsdeildinni og er þegar þessi frétt er skrifuð með 3ja stiga forskot á KA.  En rétt er að taka fram að Vestri á eftir tvo leiki, báðir á móti Hamri, sem sitja efstir í deildinni, en KA á eftir 3 leiki, einn á móti Hamri og tvo á móti HK, sem sitja í öðru sæti deildarinnar.  Ágætis líkur eru því á að Vestri spili í úrslitakeppninni, en ljóst er að lítið má út af bregða.

Það má því með sanni segja að spennan sé að magnast í blakinu og nóg framundan

Nánar

Kjörísbikarmeistarar

Blak | 17.02.2022
Vestri U16 kk. Kjörísbikarmeistarar 2022
Vestri U16 kk. Kjörísbikarmeistarar 2022

Bikarmót yngri flokka í blaki var haldið á Akureyri um síðustu helgi 11.-13. febrúar.  Mótið var fyrir tvo aldurshópa, undir 16 ára og undir 14 ára.

Að þessu sinni sendi Vestri 13 leikmenn á mótið, eitt lið U16 stráka, einn stakan U14 strák sem spilaði með blönduðu liði Þróttar Reykjavík/HK og þrjár U14 stelpur sem spiluðu með blönduðu liði Þróttur Nes/HK/Vestra.

Lítið hefur verið um yngriflokka mót undanfarin misseri og var mótið því afar ánægjuleg tilbreyting fyrir krakkana.

Stærstu fréttirnar af þessu móti eru af U16 strákaliðinu okkar þar sem 7 lið voru skráð til leiks. Þar var toppbaráttan æsispennandi, svo ekki sé meira sagt.  Toppliðin þrjú, Vestri, Þróttur Nes og HK unnu öll alla sína leiki nema einn.  HK vann Þrótt Nes 2-0 (25-10 og 26-24), Þróttur Nes vann Vestra 2-1 (17-25, 25-11 og 19-17) og því var ljóst að allt var opið í toppbaráttunni fyrir síðasta leik Vestra. Með baráttu leik Vestrastráka tókst að landa 2-0 sigri á móti HK (27-25 og 25-23) og var því ljóst að Vestri hafði tryggt sér bikarmeistaratitilinn.  Lokastaðan var Vestri með 19 stig, HK með 18 stig og Þróttur Nes með 17 stig.

Lið Vestra eru því bikarmeistarar drengja í blaki í flokki U16 árið 2022.

Við óskum drengjunum til hamingju með þennan frábæra sigur. Það er greinilegt að framtíðin er björt í blakinu hjá Vestra.

Nánar

Aðalfundur blakdeildar Vestra 2021

Blak | 22.04.2021

Aðalfundur Blakdeildar Vestra vegna starfsársins 2020, verður haldinn í Vallarhúsinu við Torfnesvöll fimmtudaginn 29. apríl kl. 17:00.

Nánar

Kjörísbikarinn 2021

Blak | 10.03.2021
Final 4
Final 4
1 af 2

Eftir skrítnasta keppnistímabil sögunnar, er blakið komið á fulla ferð aftur með áhorfendum og fullt af fjöri.  Eins og aðrar íþróttir á Íslandi, var algert keppnisbann í nóvember og desember en opnað var aftur fyrir kappleiki um miðjann janúar, en þá án áhorfenda.  Og núna er að bresta á einn af hápunktum tímabilsins (hvers árs), þegar fram fer úrslitakeppni Kjörísbikasins, sem mun fara fram í íþróttahúsinu í Digranesi í Kópavogi. 

Nánar

Öflug byrjun hjá Vestra

Blak | 05.10.2020
Felix Arturo Vazques Aguilar
Felix Arturo Vazques Aguilar
1 af 2

Karlalið Vestra í Mizuno-deildinni í blaki spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu síðastliðinn laugardag, þegar þeir fengu Íslandsmeistara síðasta tímabils í heimsókn, Þrótt frá Nekaupstað.

Nánar

Úrvalsdeildarlið Vestra

Blak | 03.10.2020
Fyrsti leikurinn er á móti Íslandsmeisturum Þróttar Nes
Fyrsti leikurinn er á móti Íslandsmeisturum Þróttar Nes
1 af 10

Í dag, 3 október, tekur karlalið Vestra í blaki á móti Íslandsmeisturum Þróttar Nes, í Torfnesi kl 15.00.

Gaman væri að sem flestir sægju sér fært að mæta og hvetja okkar menn, en einnig er hægt að horfa á alla leiki Mizunodeildar í beinu streymi á síðu Blaksambandsins.

Nánar

Aðalfundur blakdeildar Vestra

Blak | 01.07.2020

Þann 28 maí sl var haldinn aðalfundur blakdeildar Vestra. Aðalfundarstörf voru með hefðbundnum hætti, skýrsla formanns, farið yfir reikninga félagsins og kosningar.

Nánar