Fréttir - Körfubolti

7. flokkur drengja keppir á heimavelli um helgina

Körfubolti | 18.10.2013

Nú dregur til tíðinda meðal yngri iðkenda KFÍ því að um helgina fer fram fyrsta fjölliðamót vetrarins hér fyrir vestan þegar 7. flokkur drengja tekur á móti félögum sínum í Fjölni, Snæfelli, Val og Þór. Mótið hefst á morgun, laugardag, kl. 13 í íþróttahúsinu í Bolungarvík með leik KFÍ og Fjölnis en alls verða spilaðir 5 leikir í Víkinni. Mótið heldur áfram á sunnudeginum í íþróttahúsinu Torfnesi og verða þá einnig spilaðir 5 leikir og hefst sá fyrsti kl. 8 um morguninn með leik KFÍ og Vals. Við hvetjum fólk til að mæta á leikina og hvetja okkar menn til dáða.

Nánar

Stórleikur Smith dugði ekki til

Körfubolti | 11.10.2013
Smith á ferð. Mynd Benedikt Hermannsson
Smith á ferð. Mynd Benedikt Hermannsson
KFÍ og Njarðvík mættust í kvöld í Dominos-deild karla á Jakanum á Ísafirði. Vestanmenn mættu í leikinn með fullskipað lið en Njarðvíkingar mættu einungis níu en þar vantaði einna helst hinn 218 cm háa miðherja, Egil Jónasson.
 
 
Áður en leikurinn hófst var mínútuþögn til minningar um Ólaf Rafsson, fyrrum formann KKÍ sem lést í sumar, og Eirík Ragnarssonar, fyrsta formanns KFÍ, sem lést 4. október síðastliðinn.
 
Blaðamannastúkan á Torfnesi var þétt skipuð í leiknum en auk fréttaritara Körfunnar voru fjölmiðlamenn frá Mogganum, RÚV, BB og KFÍ TV í þröngri stúkunni auk þess sem Vísir.is streymdi útsendingu KFÍ TV í beinni á vefsíðu sinni.
 
KFÍ byrjaði leikinn með trukki og komust í 8-0 með tveimur þristum frá Jason Smith og körfu frá Mirko Stefán. Njarðvíkingar pressuðu hins vegar stíft allan völlinn og komust loks yfir 10-11 með AND1 frá Loga Gunnarssyni. Njarðvíkingar héldu svo áfram í bílstjórasætinu út leikhlutann en heimamenn voru aldrei langt undan. Gestirnir settu þó fjögur síðustu stig leikhlutans og leiddu 23-28 í lok hans.
 
Djúpmenn byrjuðu annan leikhluta með sömu orku og þeir byrjuðu þann fyrsta og náðu fljótt forustunni. Þegar þrjár mínútur eru eftir af fyrri hálfleik, í stöðunni 40-40, ná Njarðvíkingar 13-4 áhlaupi og leiða 44-53 í lok hans.
 
Njarðvíkingar héldu áfram að bæta við forustuna í þriðja leikhluta og náðu mest 12 stiga forustu, 52-64, þegar þrjár mínútur voru liðnar af honum. En baráttan hjá KFÍ kom þeim aftur inn í leikinn og einungis fjórum mínútum seinna var munurinn orðinn einungis eitt stig, 70-71.
 
Njarðvíkingar byrjuðu fjórða leikhluta mun betur og munaði þar miklu um að Elvar Már Friðriksson hrökk loksins í gang. Þegar þrjár mínútur eru eftir þá er munurinn orðinn 10 stig, 88-98, og lítur allt út fyrir að öruggur sigur Njarðvíkinga sé í uppsiglingu. En Ísfirðingar neituðu að gefast upp. Jason, Mirko Stefán og Ágúst setja allir niður 2 stig fyrir KFÍ og þegar 56 sekúndur eru eftir þá setur Ágúst niður þrist og munurinn skyndilega orðinn 3 stig, 97-100. Mikil spenna var þessar síðustu sekúndur en Njarðvíkingar héldu haus og kláruðu leikinn af vítalínunni. Lokastaðan því 98-106 fyrir Njarðvík.
 
Logi Gunnarsson, Nigel Moore og Elvar Friðriksson skoruðu allir 23 stig fyrir Njarðvík en Snorri Hrafnkelsson átti einnig flottan leik með 19 stig. Gamla brýnið og fyrrum leikmaður KFÍ, Friðrik Erlendur Stefánsson, var svo með 5 stig, 100% vítanýtingu og að minnsta kosti 4 villur.
 
Einhverjir varnarmenn Njarðvíkinga þurfu að öllum líkindum að fara á brunadeildina eftir leikinn því Jason Smith var sjóðandi heitur í leiknum. Hann skoraði 41 stig og setti niður 9 af 12 tvistum sínum, 4 af 6 þristum og 11 af 13 vítum ásamt því að taka 7 fráköst og gefa 7 stoðsendingar. Nokkuð ljóst er að hann er að fylla skarð Damier Pitts frá því í fyrra og gott betur.
 
Ágúst Angatýsson átti einnig skínandi leik fyrir KFÍ og setti 19 stig, jafn mikið og Mirko Stefán Virijevic sem einnig tók 8 fráköst. Hraunar Guðmundsson setti svo niður 9 stig, öll í fjórða, og Jón Hrafn Baldvinsson bætti við 8 stigum.
 
Tengt efni
Nánar

Fyrsti leikurinn í Dominos deildinni á föstudag á Jakanum

Körfubolti | 08.10.2013

Þá er þetta að byrja. Fyrsti leikur okkar í Dominos deildinni er á föstudaginn 11.október og hefst kl.19.15. Gestir okkar að þessu sinni eru lið Njarðvíkur er þeim er spáð þriðja sæti í deildinni og er því um að ræða gríðarlega öflugt lið á ferð. Við erum "undirhundar" í spánni og er okkur spáð falli, en þess ber að geta að þetta er spá og það er alls ekki í plönum Bigga þjálfara eða leikmanna KFÍ að láta spána rætast..

 

Við viljum sjá fullt hús á föstudagskvöldið og hvertjum alla að koma með verkfæri til að gera læti og gleðja okkur og ykkur í leiðinni. Árskort KFÍ verða til sölu í andyrinu og auðvitað er ekkert eins gott að eiga það í vasanum. Við munum kyna fríðindi sem fylgja kortinu í þessari og næstu viku og það er pottþéttt að þetta kort verður búið að borga sig upp á mettíma.

 

Og að sjálfsögðu verðum við með Muurikka borgarana á sínum stað fyrir leik með meistara Steina þannig að gott er að skella sér á Jakann um 18.30 og taka kvöldið snemma með okkur

 

Áfram KFÍ

 

Uppfært 11. okt kl 11:10 - Njarðvíkingar eru lagðir af stað keyrandi vestur og dómararnir lentu á Þingeyri áðan þannig að veðrið stoppar ekki leikinn af í kvöld!

Nánar

''Is this a joke?'' Af Skálarvíkurhlaupinu mikla.

Körfubolti | 06.10.2013
Strákarnir mættir í Skálavík.
Strákarnir mættir í Skálavík.
1 af 7

Þeir vissu að það var útihlaup en þeir vissu ekki hvað Birgir Örn þjálfari hafði í huga fyrir þá. "Is this a joke?", spurði Jason gáttaður á laugardaginn þegar búið var að skutla meistaraflokki karla yfir í Skálavík og þeim var sagt að hlaupa yfir til Bolungarvíkur. En þetta var sko ekkert grín og hópurinn lagði af stað yfir fjall, öslandi skaflana í vetrarríkinu á Skálavíkurheiði. Á leiðinni biðu strákanna ýmsar þrautir til að leysa, s.s. eins og að ýta bílunum sem þeir höfðu komið með. Þannig komst virðulegur formaður KFÍ hvorki lönd né strönd á sínum ameríska eðaljeppa og þurfti heilt körfuboltalið til að koma honum yfir heiðina. Körfuboltahetjurnar leystu allar þessar þrautir með sóma og skiluðu sér allir sem einn í heita pottinn í sundlauginni í Bolungarvík. Þjálfarinn verðlaunaði þá svo með því að bjóða þeim heim í ítalskan málsverð. Og það var nú meira en að segja það því að þessir piltar voru SVANGIR eins og soltin úlfahjörð eftir afrek dagsins. Þau Sigrún og Birgir Örn kipptu sér ekki upp við það og matreiddu ofan í hópinn eins og ekkert væri, svona fyrir utan smá stirðleika í þjálfaranum eftir hlaupið. Þessari æfingu gleyma menn væntanlega ekki í bráð.

Nánar

Þjálfaramenntun ÍSÍ - fjarnám

Körfubolti | 04.10.2013

Haustfjarnám 1. stigs þjálfaramenntunar ÍSÍ hefst 7. október næstkomandi.  Skráning hefur verið góð en enn eru laus pláss í námið sem er allt í fjarnámi og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar. Skráning er á namskeid@isi.is eða í síma 514-4000.   Um að gera að skella sér í frábært nám sem gefur réttindi og þekkingu til að takast á við frábært og gefandi starf við íþróttaþjálfun.  Allar frekari upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ gefur Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri í síma 460-1467 eða á vidar@isi.is.

 

Fjarnám 2. stigs hefst 14. okt og stendur skráning yfir.

Nánar

Guðmundur Jóhann Guðmundsson semur við KFÍ

Körfubolti | 02.10.2013
Gummi og Sævar formaður í góðum gír
Gummi og Sævar formaður í góðum gír

Gummi okkar hefur samið að nýju við KFÍ og eins og við höfum sagt áður eru strákarnir okkar mikilvægur hlekkur í keðjunni og þar er Gummi engin undantekning. Við erum ákaflega glöð yfir því að allir drengirnir hafa sett nafn sitt á blað og nú fer leikmannalisti okkar að verða tilbúinn.

 

Áfram KFÍ

 

Nánar

KFÍ á Greifamótið í körfubolta

Körfubolti | 27.09.2013
Strákarnir verða á Akureyri á helginni. Mynd: Karfan.is
Strákarnir verða á Akureyri á helginni. Mynd: Karfan.is

Nú um helgina fer fram hið árlega Greifamót í körfubolta karla á Akureyri. Auk heimamanna í Þór mæta Höttur, FSu og KFÍ. Mótið hefst á föstudagskvöld með leik Þórs og Hattar klukkan 19:00 svo um klukkan 21:00 mætast KFÍ og FSu. 

Leikjaplan laugardagsins
Kl. 09:00 Þór – FSu 
Kl. 11:00 Höttur – KFÍ 
Kl. 14:00 Höttur – FSu 
Kl. 16:00 Þór – KFÍ

Nánar

KR sluppu með skrekkinn gegn KFÍ

Körfubolti | 25.09.2013
Mynd: Jón Björn/Karfan.is
Mynd: Jón Björn/Karfan.is
Ísfirðingar mættu í DHL-höllina í átta liða úrslitum Lengjubikarsins í kvöld. Gestgjafarnir sigruðu D-riðil örugglega með fullu húsi stiga en Ísfirðingar höfnuðu í öðru sæti C-riðils með átta stig af tólf mögulegum.
 
Flestir hafa vafalaust búist við nokkuð þægilegum leik fyrir taplausa KR-inga en Jason Smith gaf tóninn strax í byrjun með fögrum þrist. Gestirnir frá Ísafirði mættu mjög ákveðnir til leiks og ætluðu sér greinilega að gera meira en bara að vera með. Sóknarleikur þeirra gekk með ágætum og voru með nefbroddinn á undan heimamönnum mestallan fyrsta leikhlutann. Jason sá mikið um stigaskorun gestanna en reyndi kannski á köflum aðeins of mikið einn síns liðs. KR-ingar fengu framlag frá fleirum og það skilaði sér í eins stigs forystu 23-22 eftir fyrsta leikhluta.
Nánar

Hamar engin fyrirstaða í kvöld á Jakanum

Körfubolti | 23.09.2013
Og þá erum við komnir áfram
Og þá erum við komnir áfram

KFÍ og Hamar mættust í kvöld í Ísjakanum á Ísafirði í lokaleik liðanna í riðlakeppni Lengjubikarsins. KFÍ var fyrir leikinn í 2. sæti C-riðilsins og átti góða möguleika á að komast í 8. liða úrslitin með sigri. Hamar hafði hins vegar tapað öllum fimm leikjum sínum í riðlinum og því skiptu úrslit úr þessum leik þá litlu sem engu máli.

Nánar

Hamar í heimsókn á Jakann

Körfubolti | 21.09.2013
Núna eru þeir í sama liði og ætla að sýna tennurnar
Núna eru þeir í sama liði og ætla að sýna tennurnar

Liðið hans Lalla frá Hveragerði er á leið til okkar til að leika gegn okkur síðasta leikinn í Lengjubikarnum sunnudagskvöldið 22.september. Við eigum möguleika á að komast áfram í þessari skemmtilegu keppni með því að sigra þennan leik og eru því allir kallaðir á svellið. Fyrri leikur okkar gegn þeim vannst en þessir strákar úr Hamri eru í þessu til að sigra leiki og koma ekki hingað í þeim eina tilgangi að láta taka myndir af sér. Það er því nauðsynlegt að alli mæti tilbúnir til verks, leikmenn sem og stuðningsmenn/konur.

 

Leikurinn hefst kl.19.15 og fyrir þá sem ekki komast þá er KFÍ-TV að sjálfsögðu í vinnu og byrjar útsending þeirra kl.18.50 og er hægt að sjá leikinn HÉR

 

Áfram KFÍ

Nánar