Fréttir - Blak

Afrakstur vetursins - fyrstu Skells krakkarnir til að komast í æfingahópa fyrir unglingalandslið

Blak | 18.06.2014

Fjölmenni var á lokahófi Skells sem haldið var þann 15. maí. Grímur þjálfari var kvaddur en hann hefur gert virkilega góða hluti með Skelli í vetur og margir leikmenn tekið stórstígum framförum undir hans stjórn.

Tilkynnt var um val á bestu og efnilegustu leikmönnum meistaraflokkanna fyrir tímabilið 2013-2014. Hjá meistaraflokki kvenna var Harpa Grímsdóttir best og Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir efnilegust. Hjá meistaraflokki karla var Jón Kristinn Helgason bestur og Birkir Eydal efnilegastur.


Gengi yngri flokka félagsins á Íslandsmótum var gott. Skellur lenti í þriðja sæti í 5. flokki A-liða.  4. flokks liðin voru í topp baráttu í sterkum deildum A-liða, stelpurnar enduðu í 2. sæti og strákarnir í 4. sæti. Skellur sigraði Íslandsmót B-liða pilta í 4. flokki og B-liða stúlkna í 3. flokki. 3. flokks lið drengja endaði í 4. sæti í deild A-liða.

Gengi meistaraflokkanna var ekki eins gott, en bæði lið féllu úr 1. deild. Deildirnar voru full sterkar fyrir okkar lið, en þó voru margir leikir spennandi og hvort lið vann einn leik. Yngri flokka leikmenn eru farnir að taka sæti í meistaraflokks liðunum og framtíðin er björt.


Stóru fréttirnar eru þær að í fyrsta sinn hafa leikmenn Skells verið valdir í æfingahópa hjá unglingalandsliðum. Þetta er Kjartan Óli Kristinsson og Hrisiyan Dimitrov í U-17 hóp pilta og Telma Rut Sigurðardóttir í U-17 hóp stúlkna. Við óskum þessum krökkum til hamingju með árangurinn og góðs gengis á æfingunum.

Nánar

Frábær frammistaða Skells á haustmóti BLÍ í 4. flokki

Blak | 15.11.2013

Haustmóti Blaksambands Íslands fyrir 2. og 4. flokk er lokið.

Mótið var haldið á Akureyri laugardaginn 9. og sunnudaginn 10. nóv. sl.

Skellur sendi 4 lið í 4. flokki, tvö drengjalið og tvö stúlknalið. Þrír leikmanna liðanna spiluðu “upp fyrir sig”, þ.e. komast ekki í 4. flokk fyrr en á næsta ári.

 

Stúlkurnar voru með A lið, sem spilaði í A deild (= efstu deild bestu liða landsins) og B lið sem spilaði í B deild (næst-efstu deild).

Hjá piltunum var þessu eins farið, nema hvað í B liði Skells voru tvær stúlkur og tveir drengir. Samkvæmt skilgreiningu BLÍ er það því strákalið.

 

Í A deild stúlkna voru 10 lið. Tveir 5 liða riðlar og úrslit milli efstu liða riðlanna.

A lið stúlkna varð í fyrsta sæti, tapaði einungis einni hrinu í deildinni, en vann síðan efsta liðið í hinum riðlinum af öryggi (25 : 18 og 25 : 15)

 

Í B deild stúlkna voru liðin 12. B liðið okkar stóð sig með miklum sóma eins og sést á því að það lendir í fjölda hrina sem töpuðust með minnsta mun, 2 sigum. Smá heppni og meiri trú á eigið ágæti hefði dugað til að liðið lenti í úrslitakeppni milli riðla. Í þessu liði voru tvær af fjórum stúlknanna í 5 flokki og því að spila upp fyrir sig um einn flokk.

 

Í A deild pilta voru 6 lið.  A lið pilta varð í fyrsta sæti. Baráttan í riðlinum var hörð og jöfn, en okkar lið stóðst álagið með prýði og var í fyrsta sæti með 9 stig. Næstu tvö lið voru með 8 stig, en okkar piltar töpuðu einungis tveimur hrinum meðan liðin í 2.-3. sæti töpuðu  fjórum og fimm hrinum. Þannig var sigurinn býsna öruggur, en baráttan mjög hörð. Mörg góð lið í flokknum.

 

Í B deild pilta voru 4 lið. B liðið okkar var skipað 2 piltum úr 4. flokki, einni stúlku úr 4. flokki og einni stúlku úr 5. flokki. Leikin var ein umferð með hefðbundnu sniði, allir við alla. Í þeirri umferð vann liðið alla sína leiki 2-0 .  Þá tók við krosskeppni og okkar lið lék fyrst við liðið í 4. sæti og vann enn 2 : 0. Þá var hreinn úrslitaleikur og þá kom að því að liðið tapaði hrinu, en vann tvær, sem sagt 2:1 pg fyrsta sætið var í höfn!

 

Skellur sendi sem sagt 4 lið og kom heim með 3 gull. Þessi árangur vakti verðskuldaða athygli meðal hinna liðanna. Allir blakarar vissu að A lið pilta var mjög sterkt, en t.d. Stúlkurnar frá Skelli höfðu aldrei spilað í A deild fyrr.

 

Ekki var síður  ánægjulegt að sjá að okkar krakkar voru til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Förin reyndi talsvert á að hugarfarið héldist jákvætt til dæmis vegna þess að mótinu var öllu raðað uppá nýtt strax á fyrri degi, leikir fluttir af sunnudegi og langt fram á kvöld á laugardag (um. kl. 22:15) til að liðin sem voru víðsvegar að (t.d. Ísafj., Höfn, Sigló, Rvíkursvæðið) kæmust hjá því að lenda í því illviðri sem spáð var seint á sunnudegi. Þetta kostaði það að krakkarnir urðu af ýmsum skemmtilegum uppákomum sem margir höfðu hlakkað til. Jákvæðnin og staðfestan að klára dæmið réði ríkjum og árangurinn skilaði sér.

 

Við komumst svo af stað um klukkan 11:30. Heimferðin gekk hægt en örugglega. Klukkan 21:15 renndi hópurinn í hlað við Torfnes.    

Nánar

Æfingar framundan

Blak | 03.09.2013 Verið er að leggja lokahönd á töflur íþróttahúsanna og vonandi verður allt komið í fastar skorður hjá okkur strax í næstu viku.  Næstu dagana verða æfingar sem hér segir:

Þriðjudagur 3. september: 
3.-6. bekkur á Ísafirði, Austurvegur kl. 16
7. bekkur og eldri á Ísafirði, Torfnes kl. 17:20
Meistaraflokkar kk og kvk, Torfnes kl. 21:00

Miðvikudagur 4. september:
Allir krakkar á Suðureyri kl. 16
Fullorðnir byrjendur Ísafirði, Austurvegur kl. 20:10

Fimmtudagur 5. september:
Allir krakkar á Suðureyri kl. 16
Meistaraflokkar kk og kvk, Torfnes kl. 19:40

Ef breytingar verða er það tilkynnt á Facebooksíðu Skells. Nánar

Tímabilið hafið - fyrstu æfingar

Blak | 02.09.2013 Nýr þjálfari, Grímur Magnússon, er mættur á svæðið og hefjast æfingar á fullu frá og með 2. september. Því miður er stundatafla íþróttahúsana ekki klár ennþá af hálfu HSV en við komum okkur inn samt sem áður. Það á að koma í ljós í kvöld hvaða tíma við fáum í húsunum, en fyrstu tvær vikurnar hjá nýjum þjálfara fara m.a. í að kynnast iðkendum og raða niður hópunum og því verður endanleg tafla ekki ljós fyrr en eftir þann tíma.

Fyrstu æfingar verða sem hér segir:
Krakkar/unglingar á Ísafirði fædd 1997-2001, Torfnesi mánudaginn 2. september kl. 15:35
Fullorðnir byrjendur, íþróttahúsinu Austurvegi, mánudaginn 2. september kl. 20:00

Krakkar á Ísafirði fædd 2002-2005, Austurvegi þriðjudaginn 3. september kl. 16:00
Fullorðnir, vanir leikmenn, Torfnesi þriðjudaginn 3. september kl. 21:00

Fyrsta æfing á Suðureyri verður miðvikudaginn 5. september kl. 16:00 Nánar

Besta tímabil Skells til þessa

Blak | 22.05.2013 Afrakstur leiktímabilsins hjá Blakfélaginu Skelli var sérlega góður og hafa aldrei unnist jafn margir titlar.

Fyrst ber að nefna árangur yngri flokka félagsins. 5. flokkur Skells reið á vaðið en krakkarnir urðu Íslandsmeistarar A-liða. Hér má sjá frétt um það. Fjórði flokkur pilta hjá Skelli fylgdi í kjölfarið og varð Íslandsmeistari A-liða pilta, og stelpurnar í 4. flokki náðu 3. sæti B-liða stúlkna. Hér má sjá frétt um það. Einnig stóð 6. flokkur Skells sig vel á Íslandsmótinu, en hjá þeim eru ekki reiknuð sæti heldur fá allir þátttökuverðlaun. Skellur hefur því náð eftirtektarverðum árangri í yngstu flokkunum í blaki á landsvísu. 

Karlalið Skells tók í fyrsta sinn þátt í Íslandsmótinu í blaki og gerðu þeir sér lítið fyrir og sigruðu 3. deildina.  Þeir koma því til með að spila í 2. deild að ári sem þýðir að leiknir verða leikir heima og heiman. Kvennalið Skells náði 3. sæti í 3. deild kvenna sem verður að teljast góður árangur þar sem deildin er mjög jöfn og sterk. Á Íslandsmótinu í blaki er spilað í sex deildum í kvennaflokki.

Karlalið Skells lenti í öðru sæti í 4. deildinni á öldungamóti Blí en það dugir til að komast upp um deild, og spila þeir því í 3. deild að ári þegar mótið verður haldið á Akureyri. Ekki fer eins miklum sögum af árangri kvennaliðsins á öldungamótinu í ár!

Fyrir næsta leiktímabil er búið að semja við Grím Magnússon frá blakbænum Neskaupstað um að taka að sér þjálfun allra flokka Skells. Grímur er einn af þeim sem byrjuðu blakið í Neskaupstað og hlaut hann nýlega gullmerki ÍSÍ fyrir starf sitt innan blakhreyfingarinnar. Hann hefur mikla reynslu sem þjálfari, bæði yngri flokka og meistaraflokka. Nánar

4. flokkur Íslandsmeistarar A-liða drengja. Stelpurnar í 3. sæti B-liða

Blak | 21.05.2013 Hið frábæra gerðist að í ár eigum við Íslandsmeistara A-liða í bæði 5. og 4. flokki. Drengjaliðið okkar (með einni stelpu innanborðs) náði sér í Íslandsmeistaratitil í síðustu umferð Íslandsmótsins sem haldin var á Akureyri 20. og 21. apríl. Þetta er í fjórða sinn sem krakkarnir í þessu liði landa Íslandsmeistaratitli. Fyrst var það í 5. flokki C-liða, síðan tvisvar í 5. flokki A-liða og nú í 4. flokki A-liða. Annað lið frá Skelli keppti í deild B-liða stelpna. Það er mjög fjölmenn deild og náðu þær sér í 3. sætið aðeins hársbreidd frá öðru sætinu.

Hér að neðan er stutt ferðasaga og fleiri myndir eru á Facebook síðu Blakfélagsins Skells:
Til stóð að fljúga á mótið á föstudegi en vélin snéri við rétt áður en hún átti að lenda og því var liðinu hent upp í þrjá bílaleigubíla og keyrt fram á nótt. Ferðin gekk vel og allir voru sofnaðir um tvö leytið.

Á laugardegi voru spilaðir leikir milli 8:45 og 13:00. Óhætt er að segja að okkar krökkum hafi gengið vel. Stelpuliðið vann alla leikina nema einn á móti sterku liði Þróttar Nes B. Þær eiga svo einn leik á morgun. Strákarnir (og Auður) unnu alla þrjá leikina sína en tveir þeirra fóru í oddahrinur. Mjög spennandi leikir. Krakkarnir fóru síðan í sund, keilu og bíó - allur pakkinn og mikið fjör og gleði.

Á sunnudeginum var spilað fram að hádegi. Stelpurnar töpuðu sínum leik, en strákarnir unnu Þrótt Nes í æsispennandi oddahrinu. Flugið var tekið til baka og gekk það ljómandi vel.

 Í ferðinni náðu krakkarnir myndum af sér með nokkrum frægum: Hraðfréttagaurunum, Jógvan og Páli Óskari (aftur).  Hinsvegar var Bjarni Ben á flugvellinum í Reykjavík meðan við vorum þar en þau höfðu ekki mikinn áhuga á honum, fannst þau samt eitthvað kannast við gaurinn. Sigmundur Davíð var í flugvélinni með 5. flokki á leiðinni til Neskaupstaðar - enda síðasti spretturinn í kosningabaráttunni. Krakkarnir hefðu því getað náð myndum af sér með næstu forsætis- og fjármálaráðherrum - skil ekkert í áhugaleysi þeirra :-)

Nánar

5. flokkur Íslandsmeistarar A-liða!

Blak | 21.05.2013 Síðasta mótið á Íslandsmótaröðinni í 5. og 6. flokki var spiluð í Neskaupstað dagana 12.-13. apríl. Er skemmst frá því að segja að  5. flokks lið Skells varð Íslandsmeistarar A-liða eftir harða baráttu, en í liðinu eru bæði strákar og stelpur frá Suðureyri og Ísafirði. Í 5. flokki voru deildir ekki kynjaskiptar, enda ekki sérstakur getumunur á strákum og stelpum í blaki á þessum aldri. Samtals voru 25 lið í 5. flokki á mótinu þannig að árangurinn er glæsilegur.

Lið Skells í 6. flokki náði líka góðum árangri en þau kepptu mikla baráttuleiki og unnu tvo en töpuðu tveimur á þessu móti. Þau unnu alla leikina á fyrra mótinu sínu, en ekki eru reiknuð sæti á Íslandsmótinu í 6. flokki heldur fá allir þátttökupening.

Hérna fyrir neðan er ferðasagan í stuttu máli, en fleiri myndir úr ferðinni eru á Facebook síðu Blakfélagsins Skells:

Ferðin gekk vel og var viðburðarík. Flugvélin náði sem betur fer að lenda á milli élja á Ísafirði á föstudagsmorgni og á flugvellinum í Reykjavík hittum við Pál Óskar sem var líka á leið til Neskaupstaðar að spila á unglingaballi. Hann gaf eiginhandaráritanir með glöðu geði og stillti sér upp til myndatöku með krökkunum. Farið var með rútu frá Egilsstöðum til Neskaupstaðar og á leiðinni sáum við hóp af hreindýrum rétt við veginn. Ekki slæmt að ná bæði Páli Óskari og hreindýrum strax á fyrsta degi! Við spiluðum æfingaleiki við fullt af krökkum í gulum búningum (Þrótt Nes) og það gekk mjög vel. Síðan fórum við í kaffiboð til afa og ömmu Kára (foreldra Hörpu) og síðan voru gerðar pizzur í skólanum.

Á degi tvö var ræs kl. 6:45, morgunverður og svo beint í leiki. Liðunum gekk vel og krakkarnir voru duglegir og prúðir. 5. flokks liðið vann alla sína leiki þennan dag og 6. flokkur vann einn leik og tapaði tveimur en þeir fóru báðir í oddahrinu. Eftir leikina var farið í laaanga og skeeemtilega sundferð - tveir og hálfur tími takk fyrir og mörg hundruð ferðir samtals í Dóra rauða, en stóra rennibrautin heitir það. Skúffukaka og mjólk og svo var matur og kvöldvaka. Krakkarnir okkar fóru að sjálfsögðu á kostum á kvöldvökunni og eignuðust marga nýja vini.

Síðasta daginn var líka vaknað eldsnemma og spilaðir leikir. 6. flokkur vann sinn leik - í oddahrinu að sjálfsögðu. 5. flokkur vann einn og tapaði einum sem dugði þeim til Íslandsmeistaratitils.

Þetta er í þriðja sinn sem lið frá Skelli verður Íslandsmeistari í 5. flokki, en í fyrsta sinn hjá þessum krökkum. Við erum virkilega stolt af krökkunum okkar og sjáum fyrir okkur bjarta framtíð blaksins á Norðanverðum Vestfjörðum.
Nánar

Arnar nýr í stjórn félagsin

Blak | 30.03.2013 Blakfélagið Skellur hélt aðalfund sinn þriðjudagskvöldið 19 mars.  Um var að ræða hefðbundin aðalfundarstörf.  Skýrslu formanns má finna undir félagið og skýrslur, þar sem nokkuð ítarlega er farið yfir starfsemi ársins 2012.  Í skýrslu gjaldkera kom fram að fjárhagsleg staða félagsins er traust og ágætur afgangur varð á síðasta ári.  Munar þar mest um þau tvö blakmót sem félagið hélt á vegum BLÍ.Einhverjar mannabreitingar urðu í stjórn félagsins.  Samkvæmt lögum félagsins er árlega kosinn formaður og að auki tveir af fimm stjórnarmönnum og báðir varamenn stjórnar.  Arnar Guðmundsson frá Súgandafirði kemur nýr inn í stjórn í stað Gunnars Bjarna Guðmundssonar.  Þá kemur Ari Klængur Jónsson nýr inn í vara stjórn í stað Margrétar Eyjólfdóttur.  Í Barna og unglingaráði var Svava Rán Valgeirsdóttir kjörinn ný inn í stað Arnheiðar Ingibjargar Svanbergsdóttur.Vill undirritaður bjóða nýkjörna stjórnarmenn velkomna til starfa fyrir félagið og íþróttina sem og þakka hinum sem losnuðu undan skyldum, kærlega fyrir þeirra framlag á undanförnum árum. Nánar

Aðalfundur Blakfélagsins Skells

Blak | 07.03.2013

Blakarar og blak-krakkaforeldrar í Ísafjarðarbæ

athugið

Aðalfundur Blakfélagsins Skells verður haldinn þriðjudaginn 19 mars 2013 kl. 19.30

í salnum á efri hæð Íþróttahússins á Torfnesi

Dagskrá fundarins:

· Hefðbundin aðalfundarstörf

o skýrslur stjórnar

o kosning í stjórn

o kosning í krakkablaksráð

· Önnur mál

Foreldrar og félagar eru hvattir til að fjölmenna.


Stjórnin

Nánar

3. flokkur stúlkna á bikarmóti í Reykjavík

Blak | 28.02.2013 Höfrungur og Skellur sendu sameinað lið í 3. flokki kvenna á bikarmót 2. og 3. flokks í Reykjavík helgina 23.-24. febrúar.  Liðið var skipað þremur stúlkum frá Ísafirði, tveimur frá Þingeyri og einni frá Suðureyri. Stelpurnar höfðu ekki spilað mikið allar saman, en náðu einstaklega vel saman á mótinu og liðið óx með hverjum leik.

Guðrún og Steinn frá Þingeyri keyrðu suður á tveimur fólksbílum. Guðrún var fararstjóri og gisti með hópnum. Harpa flaug suður í tengslum við vinnu og stjórnaði liðinu á mótinu. Ferðin gekk rosalega vel - ekki hægt að biðja um betri færð á þessum árstíma - allt autt.

Á bikarmótum er ekki skipt í getuflokka heldur eru öll liðin saman í deild. Skellur var í riðli með Þrótti N A, HK og Stjörnunni. Á laugardeginum var leikin heil umferð og töpuðu stelpurnar okkar fyrir Þrótti og HK enda eru það hvoru tveggja mjög sterk lið með leikmönnum sem sumir hverjir eru farnir að leika með meistaraflokksliðum í 1. deild. Þær stóðu sig samt mjög vel á móti þessum liðum og náðu alveg að stríða þeim svolítið. Leikurinn á móti Stjörnunni tapaðist naumlega 2-1.  Daginn eftir kepptu þær um 5.-7. sæti og þá byrjuðu þær á að vinna Stjörnuna nokkuð örugglega. Síðan spiluðu þær hörkuspennandi leik á móti KA, sem tapaðist með minnsta mögulega mun 2-1 og 16-14 í úrslitahrinunni. Þær enduðu því í 6. sæti af 7 liðum. Liðið óx og dafnaði með hverjum leiknum. Stelpurnar náðu vel saman og voru duglegar að hvetja hver aðra. Þær eru að spila fastar stöður núna í fyrsta sinn á móti og það gekk mjög vel - þær hafa kollinn í lagi!

Guðrún fór með stelpurnar í skautahöllina eftir leikina á laugardeginum, þar var rosa stuð og allir skemmtu sér þrusuvel. Svo var farið á KFC til að fá sér í gogginn. Þær fórum bara snemma upp í skóla og sátu og spjölluðu og fóru í leiki og snemma að sofa. Eftir leiki á sunnudeginum var farið í sund í Árbæjarlaug og svo fengu sér allir ís áður en lagt var af stað heim á leið. Ferðin heim gekk líka mjög vel - allir þreyttir en ánægðir eftir góða helgi.

Takk fyrir stelpur þið stóðuð ykkur súper vel og gaman að kynnast ykkur öllum.

Guðrún og Harpa Nánar