Fréttir - Blak

Öldungamótið að bresta á

Blak | 10.05.2010

Tvö lið frá Skelli fara að þessu sinni á öldungamótið í Mosfellsbæ, eitt kvennalið og eitt karlalið. Þetta er stærsta mótið hingað til með um 120 liðum. Liðin okkar gista í einbýlishúsi í Mosfellsbæ, konurnar á efri hæðinni og karlarnir á þeirri neðri. Í húsinu er borðtennisborð, píluspjald og ljósabekkur! þ.a. ef einhver tími gefst utan við blakið verður nóg við að vera.

 

Karlaliðið varð í öðru sæti í 5. deild í fyrra og vann sig upp í 4. deild. Hjá körlunum eru samtals sex deildir. Kvennaliðið sigraði 6. deild í fyrra og spilar því í 5. deild í ár, en hjá konunum eru samtals tíu deildir á þessu móti. Markmiðið hjá báðum liðum verður að halda sér í deildinni og allt fyrir ofan það yrði ánægjuleg viðbót.

 

Öldungamótið markar lok hefðbundna blaktímabilsins hjá Skelli, en vestfirskir blakarar verða örugglega duglegir í strandblakinu í sumar.

Nánar

Krakkablak, síðasta æfingin í dag

Blak | 10.05.2010 Síðasta æfingin á þessari önn verður í dag, mánudaginn 10. maí.  Í næstu viku verður slútt og er stefnt á að hafa það á strandblakvellinum á Þingeyri. Það er komin ágætis hefð fyrir því og krakkarnir eru mjög spenntir. Við reiknum með að fara með einkabílum, spila svolítið strandblak, grilla og fara jafnvel í sund. Við ætlum aðeins að sjá veðurspána áður en endanleg dagsetning verður ákveðin.
kveðja, þjálfarar Nánar

Mistök í útreikningum hjá Blí - stelpurnar okkar fá silfur

Blak | 20.04.2010 Gerð voru mistök við útreikning á samanlögðum stigum frá mótunum tveimur í 4. flokki stúlkna B-liða. Skellur voru sagðar hafa lent í 1. sæti samtals og tóku á móti gullpeningum, en hið rétta er að þær lentu í öðru sæti og áttu að fá silfur. Mótsstjóri hefur tilkynnt þetta og beðist afsökunar á mistökunum.
Bikararnir urðu því tveir en ekki þrír, og Skellur 1 í 5.flokki eru fyrstu og einu Íslandsmeistarar Skells í yngri flokkum.

Árangurinn samt glæsilegur!
Nánar

Skellur heim með þrjá bikara af fyrsta Íslandsmótinu sínu!

Blak | 19.04.2010

Krakkarnir í blakfélaginu Skelli tóku þátt í seinni hluta Íslandsmótsins í blaki yngri flokka um helgina. Skellur sendu fjögur lið; þrjú í 5. flokki og eitt lið í 4. flokki og er þetta fyrsta heila Íslandsmótið sem Skellur tekur þátt í. Í krakkablaki er spilað mismunandi stig af blaki eftir getu og á Íslandsmótinu er spilað í mismunandi deildum eftir því hvaða stig krakkarnir spila. Hér fyrir neðan er sagt frá hverju liði fyrir sig í örfáum orðum:

 

Skellur 1 í 5. flokki: Liðið spilaði 3. stig á mótinu í haust og 4. stig á þessu móti. Óhætt er að segja að þessir krakkar séu farnir að spila fallegt blak. Í þeirra deild voru 12 lið og spilað í tveimur riðlum. Á mótinu í haust unnu þau alla leiki í sínum riðli og töpuðu naumlega úrslitaleik 2-1 við Aftureldingu sem var efsta liðið í hinum riðlinum. Á þessu móti fór riðlakeppnin á sama hátt, Skellur og Afturelding unnu hvort sinn riðilinn og aftur var leikinn úrslitaleikur í lok mótsins. Nú mættu krakkarnir í Skelli gríðarlega einbeitt til leiks og aldrei var spurning hvoru megin sigurinn lenti. Leikurinn vannst 2-0 og Skellur hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum í sinni deild. Það vakti mikla athygli að félagið skyldi ná gulli á fyrsta Íslandsmótinu sínu.  Í liðinu voru: Bjarni Pétur, Auður Líf, Ívar Tumi, Birkir og Daði. Fjögur þeirra eru í raun í 6. flokki og eru því að spila upp fyrir sig. Þetta lið mun því spila í deild með A-liðum á næsta ári enda hafa þau sýnt og sannað að þau eiga fullt erindi í það.

Nánar

Blakkrakkar á seinni hluta Íslandsmóts í Kópavogi

Blak | 15.04.2010

Krakkar úr Skelli eru nú að búa sig undir seinni hluta Íslandsmótsins í blaki yngri flokka í Kópavogi. Þau fara suður með flugi á föstudaginn og koma heim síðdegis á sunnudag. Keppt verður á laugardegi og sunnudegi. Leikmenn sem fara á mótið eru 20 talsins og spila þau í fjórum liðum; þrjú lið í 5. flokki og eitt í 4. flokki.

A-lið Skells í 5. flokki er í öðru sæti á Íslandsmótinu eftir fyrri umferðina og eiga því möguleika á verðlaunum ef þeim gengur vel núna. Hin liðin sem tóku þátt síðast stóðu sig líka mjög vel og voru nálægt miðju. Fyrst og fremst verður gaman hjá okkur um helgina og við gerum okkar besta í leikjunum. Vonum bara að eldgos eða veður hafi ekki áhrif á ferðaplön!

Nánar

Áríðandi tilkynning vegna ferðar á Íslandsmót yngri flokka

Blak | 14.04.2010

Ísfirski hluti krakkahópsins fer með morgunvél á föstudag. Mikilvægt er að allir séu mættir á réttum tíma. Tveir stórir bílar hafa verið teknir á leigu. Dagskrá dagsins hljóðar upp á sund í Laugardalslaug, skautaferð í skautahöllinni í Laugardal og að lokum bíó, líklega í Kringlubíói.  Allir þurfa að taka með sundföt - en það var ekki tekið fram á miðanum sem krakkarnir fengu með heim.

Nánar

3.deildin, tveir sigrar og eitt tap

Blak | 14.04.2010

Kvennalið Skells keppti í síðustu umferð 3. deildar Íslandsmótsins um síðustu helgi. Liðið spilaði þrjá leiki og vann tvo af  þeim en tapaði einum. Þrátt fyrir það lenti Skellur í þriðja sæti af fjórum í riðlinum þar sem þrjú efstu liðin voru öll með fjögur stig en Skellur með lakasta hrinuhlutfallið. Leikirnir voru spennandi og skemmtilegir eins og venjulega í þessu móti. Skellur lenti í heildina í 9. sæti 3. deildar sem er nálægt miðri deild.

Nánar

Úrslitakeppni 3.deildar um helgina

Blak | 08.04.2010

Óhætt er að segja að í nógu sé að snúast hjá ísfirskum blökurum þessa dagana. Helgina fyrir páska fóru tvö lið á Kjörísmót Hamars sem haldið var á Selfossi. Næsta stóra verkefni er lokamótið í 3. deild kvenna í Íslandsmótinu. Mótið verður núna um helgina, 9.-10. apríl og er haldið í Kópavogi. Á lokamótinu er spilað í þremur deildum sem liðin raðast í eftir árangri þeirra á fyrri mótum í vetur. Þarna spila öll liðin á landinu, en fram að þessu hafa Skellur spilað í annarri af tveimur suðvestur-deildum. Ekki tókst okkur Skellum að komast í efstu deildina á lokamótinu, en við spilum í mið-deildinni sem verður að teljast viðunandi árangur. Við leikum gegn Reyni, Hamri og Lansanum og spilum einn leik á föstudagskvöldi og tvo á laugardegi. Að sjálfsögðu kemur ekkert annað til greina en sigur í öllum leikjum, en til þess þarf að berjast til síðasta blóðdropa.....

 

Næstu helgi á eftir fara krakkarnir okkar svo á Íslandsmótið í krakkablaki í Kópavogi. Við skrifum meira um þá ferð í næstu viku, en upplýsingar fyrir foreldra er að finna undir linknum "krakkablak".

 

Því næst tekur við stífur undirbúningur fyrir sjálft öldungamótið sem haldið verður í Mosfellsbæ í ár.



Minnum jafnframt á aukaæfinguna þriðjudaginn 12. apríl klukkan 17 í Torfnesi fyrir alla krakka sem fara með á Íslandsmótið.

 

 

Nánar

Stórskemmtilegt Hamarsmót

Blak | 01.04.2010

Blakfélagið Skellur sendi tvö lið á Kjörísmót Hamars á Selfossi sem fram fór síðasta laugardag. Karlaliðið keppti í neðri deildinni og gekk alveg ljómandi vel. Þeir unnu fimm hrinur og töpuðu þremur og lentu í 3. sæti í deildinni. Taka ber fram að þetta eru fyrstu leikirnir sem tveir af leikmönnunum sigra á sínum blakferli - en örugglega ekki þeir síðustu. Kvennaliðið var líka í 2. deild en í kvennaflokki voru þrjár deildir í heildina. Leikirnir voru flestir spennandi og skemmtilegir. Skellur hafnaði í 2. sæti og fékk að launum páskablóm, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Mjög vel var staðið að mótinu og allir keppendur fengu ís og happaþrennu!

Nánar

Páskamót í blaki á Suðureyri

Blak | 31.03.2010 Haldið verður í annað sinn páskamót í blaki í íþróttahúsinu á Suðureyri laugardaginn 3. apríl.  Blakmótið verður eins konar skemmtiblak þar sem ungir og aldnir leiða saman hesta sína til að hafa gaman af. Mótið hefst kl 11:00 um morguninn og er þátttökugjald kr. 300 á einstakling. Mótið er fyrir 14 ára og eldri. Nánar