Fréttir - Blak

Velheppnuð ferð á öldungamótið

Blak | 04.05.2009

Blakfélagið Skellur gerði ljómandi góða ferð á Íslandsmót öldunga í blaki sem haldið var á Seyðisfirði og Egilsstöðum um helgina. Mótið var hið fjölmennasta frá upphafi en 108 lið voru skráð til leiks. A lið kvenna spilaði gott blak svo að eftir var tekið og vann sigur í sinni deild. Þær munu því spila í 5. deild að ári. B liði kvenna gekk ekki eins vel og féllu þær niður í 8. deild, þrátt fyrir mjög góð tilþrif inn á milli.

 

Karlalið Skells náði glæsilegum árangri og lenti í 2. sæti í sinni deild og færist því upp í 4. deild. Lið Rassskells sem er sameinað lið Tálknfirðinga og Ísfirðinga stóð undir nafni og ýmist rassskellti önnur lið eða lét rassskella sig og endaði um miðja deildina.  Úrslitin í heild sinni má sjá hér: http://blak.is/default.asp?page=upplvefur/lokastada.asp  

 

Liðin fengu hús á Seyðisfirði og kvennaliðin gistu í einu húsi og karlaliðin í öðru skammt frá og var göngustígur á milli. Karlarnir voru svo sætir að bjóða konunum í ljúffengan mat á föstudagskvöldinu (alveg óvænt). Eftir það var haldið á Karaoke keppnina þar sem liðin okkar voru með tvö frábær atriði - annað diskó en hitt pönk. Konurnar buðu síðan körlunum í veislu fyrir lokahófið á laugardagskvöldinu og voru þá haldnar ræður, farið yfir atburði mótsins og ýmsar viðurkenningar veittar. Gífurleg stemmning var á lokahófinu eins og alltaf, enda vita allir blakarar að viðlíka stemmning fyrirfinnst hvergi annars staðar. 

 

Það voru þreyttir og sælir blakarar sem lentu á Ísafjarðarflugvelli á sunnudag. Sumir voru komnir heim en aðrir áttu eftir að keyra mislangt.  Næsta verkefni verður síðan landsmót UMFÍ sem haldið verður á Akureyri í júli, en stefnt er á að senda blaklið karla og kvenna frá HSV.

 

Nánar

ÖLDUNGAMÓT 2009

Blak | 28.04.2009

Þá er komið að því.  Stundin sem við höfum beðið eftir frá því á síðasta öldungamóti á Ísafirði í fyrra. Skellur er á leið á öldungamót á Seyðisfirði og Egilsstöðum - Húrraaaa!

 

Flogið verður í hádeginu á morgun miðvikudegi, millilent í Reykjavík og lent á Egilsstöðum um klukkan 15. Við förum með tvö kvennalið og tvö karlalið héðan frá Vestfjörðum. Þar sem Tálknfirðingarnir voru ekki með nægan mannskap í eitt lið og við ekki í tvö lið, var ákveðið að blanda saman liðunum. Karlarnir fara því með eitt Skells-lið sem er skipað Ísfirðingum og Súgfirðingum og eitt lið sem fékk hið lýsandi nafn "Rassskellur".  Í því eru fjórir Tálknfirðingar og þrír Ísfirðingar.  Konurnar fara með liðin Skellur A og Skellur B sem spila í 6. og 7. deild. Í liðunum eru Ísfirðingar, Þingeyringar, Súgfirðingur og Tálknfirðingur - góð blanda! 

Nánar

Skellur á Íslandsmóti yngri flokka í blaki

Blak | 21.04.2009

Blakfélagið Skellur sendi eitt lið á Íslandsmót yngriflokka í blaki á Akureyri um síðustu helgi. Það voru þau Alexander, Regína, Daði og Lena sem spiluðu í 4. flokki stig 5, en þá er spilað venjulegt blak með fullorðinsbolta.
 

Spilaðir voru fjórir leikir á laugardeginum og tveir á sunnudeginum, þetta er fyrsta alvöru mótið sem krakkarnir fara á og stóðu þau sig mjög vel. Þarna voru 74 lið að keppa allsstaðar að af landinu og mikið fjör í húsinu.

Ferðasöguna frá mótinu er hægt að skoða undir tenglinum: krakkablak eða með því að smella hér

Nánar

Margrét Eyjólfsdóttir 50 ára í dag

Blak | 21.04.2009 Margrét Eyjólfsdóttir fyrrverandi formaður félagsins og skella til margra ára er fimmtug í dag.
Við sendum henni hamingjuóskir í tilefni dagsins og vonum að hún eigi góðan dag í Skógarhlíð
Nánar

Ferðasagan

Blak | 15.04.2009

Hér að neðan er ferðasaga ótrúlega duglegra blakkrakka sem fóru í ævintýraferð til Ólafsvíkur:
Föstudagur:

Lagt var af stað um klukkan 13:30 frá íþróttahúsinu Torfnesi.  Bílstjóri var Friðfinnur frá Þingeyri og var setið í öllum sætum í 25 manna rútunni. Stoppað var einu sinni við eyðibýli í Djúpinu til að pissa - og kom þá í ljós að stelpur nú til dags kunna ekki að pissa úti :-)  En eftir smá vangaveltur og nokkrar tilraunir tókst þetta hjá flestum. Stoppað var í sjoppunum á Hólmavík og í Búðardal. Ferðin var löng, milli 8 og 9 klukkustundir, en bíómyndir styttu okkur stundir á leiðinni og var Ívar Tumi tæknimaður ferðarinnar.

Nánar

Farangurinn væntanlegur í kvöld.

Blak | 06.04.2009

Friðfinnur er búinn að fá bróður sinn til að skutlast með sig á snjóbílnum að sækja farangurinn í rútuna. Það er ekki hægt að fara í það alveg strax, en vonandi í dag fyrir myrkur. Friðfinnur mun síðan koma farangrinum hingað í íþróttahúsið á Torfnesi. Þetta ætti því vonandi að verða komið í kvöld, en við munum senda SMS þegar það gerist.

 

Kveðja,

 

Harpa

Nánar

Krakkablakferðin til Ólafsvíkur

Blak | 06.04.2009  

Þá er skemmtilegri og ævintýralegri blakferð lokið og allir þreyttir en vonandi sáttir og sælir.  Tekin var ákvörðun um að taka Baldur heim og koma yfir Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar. Við vonuðumst til þess að klárað yrði að moka Hrafnseyrarheiði, en vorum annars með plan B sem var að fá snjóbíl á móti okkur og ferja okkur yfir þennan stutta kafla.  Í ljós kom að við þurftum að nota það plan og gekk það mjög vel. Til að flýta ferðinni gengum við af stað á móti snjóbílnum, enda blíða á heiðinni, og skildum farangurinn eftir í rútunni. Tekið skal fram að snjóbíllinn fór gamla vetrarveginn þar sem ekki var snjóflóðahætta á ferð.

Nú hefur verið hætt við að opna Hrafnseyrarheiði fyrir páska þannig að við þurfum að reyna að nálgast farangurinn í rútunni og látum ykkur vita þegar okkur hefur tekist að koma honum hingað til Ísafjarðar.

 

Setjum inn myndir og nánari ferðasögu mjög fljótlega.

 

Kveðja,  Harpa

Nánar

Páskamót í blaki á Suðureyri

Blak | 01.04.2009 Ákveðið hefur verið að halda lauflétt páskamót í blaki í íþróttahúsinu á Suðureyri föstudaginn langa kl 10.30 og mun standa fram eftir degi.
Nánar

Blakferð á Snæfellsnes

Blak | 31.03.2009

Farið verður frá Ísafirði föstudaginn 3. apríl kl. 13:00 ef keyra þarf alla leið, annars kl. 15:00 ef fært verður í Baldur.

Verð á barn er 6.000 kr , innifalið í því er:

Rútan, morgunmatur á laugardag og sunnudag, pizzuveisla á laugardag, hressing á föstudagskvöldið, gisting  (gist verður í skólanum).

 

Nánar

Aðalfundurinn

Blak | 27.03.2009 Þann 25. mars s.l. var aðalfundur félagsins haldinn.
Í skýrslum stjórnar kom fram að árið 2008 hafi verið viðburðaríkt í meira lagi.  Sem kunnugt er hélt félagið 33. Öldungamót Blaksambands Íslands síðastliðið vor í Ísafjarðabæ og Bolungarvík.  Um er að ræða eitt stærsta íþróttamót sem haldið hefur verið á Vestfjörðum.  Mótið var gríðarlega góð kynning á íþróttinni og hefur aukið áhuga á blaki hér á svæðinu mikið.  Félagið heldur úti starfi fyrir krakka á aldrinum 6 til 14 ára á Ísafirði og Suðureyri, en framundan er keppnisferðalag á Snæfellsnes.  Í blaki fullorðinna eru æfingar á fullu þessa dagana fyrir næsta öldungamót sem haldið verður á Egilsstöðum og Seyðisfirði.  Væntanlega verða keppendur frá félaginu í þremur liðum á því móti.  Einnig er vert að geta þess að kvennalið frá Skelli hefur í vetur og fyrravetur keppt á Íslandsmótinu í 3. deild í blaki.  Samkvæmt lögum félagsins var kosið um þrjá stjórnarmenn, formann til eins árs og aðra tvo til tveggja ára. Harpa Grímsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og í hennar stað kom inn Gunnar Bjarni Guðmundsson. Ný stjórn er því þannig skipuð;
Sigurður Hreinsson formaður, Gunnar Bjarni Guðmundsson varaformaður,
Þorgerður Karlsdóttir gjaldkeri,
Sólveig Pálsdóttir ritari
Ásdís B. Pálsdóttir meðstjórnandi.
Á fundinum var skipuð nefnd sem falið er að endurskoða lög félagsins m.a. með það að markmiði að tryggja betur stöðu yngriflokkastarfsins.  Mikil þörf er á að auka þáttöku foreldra í því starfi og var því talið nauðsynlegt að endurskoða lög félagsins.  Nefndin á að skila af sér í lok maí. Aðalfundurinn var undir styrkri fundarstjórn Jóns Páls Hreinssonar formanns HSV, og færum við honum bestu þakkir fyrir.  Nánar