Fréttir - Knattspyrna

Hólmfríður Magnúsdóttir heimsótti Ísafjörð

Knattspyrna | 02.02.2010 Við fengum góða heimsókn um helgina en þá komu þau Hólmfríður Magnúsdóttir, vinstri kantari landsliðsins og Kristianstad  í Svíþjóð og Guðlaugur Þorvaldsson frá KSÍ á æfingar nokkurra yngri flokka. Hólmfríður hafði frá mörgu að segja, hún er nú að flytja til Bandaríkjanna þar sem hún er að fara að spila með Philadelphia Independance. Hún veit sem er að liðið er mjög sterkt og er því að æfa meira núna en nokkru sinni og tók sér ekki einu sinni frí eftir að tímabilinu í Svíþjóð lauk þar sem hún vildi byggja ofan á formið sem hún var í þá. þess vegna æfir hún nú tvisvar á dag og passar sig á því að hvíla sig vel (fer alltaf að sofa um kl. tíu á kvöldin), borða hollan mat (því hún veit að ef hún borðar eitthvað ruslfæði mun hún verða bensínlaus á æfingum og þá bætir hún sig ekki neitt) og æfa markvisst og  vel. Hún er t.d. búin að leggja mikla áherslu á tækni undanfarið og til að verða betri í henni fer hún á völlinn kl. 5:45 á morgnana og æfir skot, knattrak eða sendingar í ca. klukkutíma á hverjum degi. Þess utan fer hún á þrekæfingar og styrkir líkamann til að berjast fyrir sæti sínu í Philadelphia-liðinu enda segir hún að ekkert sé öruggt í liðsvalinu, hún hafi aldrei verið í jafnsterku liði. Þar er að finna landsliðskonur frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Svíþjóð auk fimm U-23 ára landsliðsstelpna frá Bandaríkjunum. Þetta verður því erfitt fyrir Hólmfríði en hún fagnar ögruninni og ætlar að gera eins vel og hún getur og helst aðeins meira en það.
Vonandi höfðu allir gaman af að hitta þessa sterku knattspyrnukonu, við getum allavega lært mikið af henni. Hún bað fyrir bestu kveðjur til allra flottu krakkanna okkar og þakkar ykkur fyrir móttökurnar og spurningarnar sem þið lögðuð fyrir hana og vonar að þið hafið getað lært eitthvað örlítið af henni.

Myndir frá heimsókninni verða settar inn í myndahlutann hér til hliðar. Nánar

Æfingar hafnar að nýju!

Knattspyrna | 07.01.2010 Jæja gott fólk! Við óskum öllum gleðilegs nýs árs og farsældar auðvitað í knattspyrnumálum sem öðrum málum.
Æfingar eru hafnar að nýju og breytast ekki frá fyrra ári en æfingatöfluna er hægt að sjá hér til vinstri á síðunni. Vonandi hafa allir haft það gott um hátíðarnar og koma endurnærðir og úthvíldir til æfinga og starfa á nýju ári. Nánar

Landsbankinn endurnýjar styrktarsamning sinn við félagið!

Knattspyrna | 15.12.2009 Inga Karlsdóttir, útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði, skrifaði undir endurnýjaðan styrktarsamning við félagið í íþróttahúsinu við Torfnes á dögunum. Formaðurinn, Svavar Þór Guðmundsson, kvittaði fyrir félagið og var að vonum ánægður með stuðning Landsbankans, enda blæs þetta nýju lífi í starfið. Peningastaðan hefur ekki verið ákjósanleg undanfarið enda styrkjum fækkað nokkuð sem skiljanlegt er og svo ákvað stjórn félagsins að bíða með hækkun æfingagjalda þar til samfélagið sér fram á bjartari tíð og blóm í haga. Þar með hafa æfingagjöld ekki hækkað frá árinu 2005 og erum við ekkert nema stolt af því að geta haldið starfinu úti með öðrum úrræðum, foreldrum og iðkendum til góða, vonandi. Styrkur Landsbankans er því, eins og áður sagði, mikilvægur fyrir félagið og þakkar stjórn þess Ingu og hennar fólki í Landsbankanum kærlega fyrir góðvildina í garð félagsins. Nú skulum við halda okkar striki og hvika hvergi. Nánar

Hildur valin í æfingahóp U-16 ára landsliðsins

Knattspyrna | 07.12.2009 Hildur Hálfdánardóttir í 3. flokki BÍ/UMFB hefur verið valin í æfingahóp U-16 ára landsliðs Íslands. Hún mun halda suður á bóginn um næstu helgi og taka þátt í tveimur æfingum undir stjórn Þorláks Árnasonar þjálfara liðsins sem fram fara í Kórnum og Egilshöll.
Þetta er gott tækifæri fyrir Hildi að sýna hvað í henni býr (það sem við sáum í leikjum flokksins í sumar) og koma sér á kortið sem knattspyrnukona framtíðarinnar. Þetta er frábæri árangur enda margar stúlkur um hituna og sýnir að við getum staðið þeim stóru á sporði - og rúmlega það.
Við óskum Hildi innilega til hamingju. Nánar

Myndband komið inn á vefinn

Knattspyrna | 03.12.2009 Þá er Fjölnir Baldursson, pabbi Natalíu, búinn að senda myndband frá lokahófinu inn á youtube.com. Þið getið nálgast það hér: http://www.youtube.com/watch?v=G03xj2_hGa4


Njótið vel og kærar þakkir til Fjölnis fyrir áhugann og alla vinnuna í kringum þetta.
Nánar

Jólafríið að skella á!

Knattspyrna | 03.12.2009 Þá er komið að fríinu sem er nú tekið í desember ár hvert í stað september. Ástæðan er sú að mikið rót kemst á starfið í desember vegna hátíðanna og því er alveg eins gott að fólk þurfi þá ekki að skipuleggja fótboltann með öllu öðru sem um er að vera í jólamánuðinum.
Vonandi eru sem flestir fylgjandi þessum frítíma en það er vitað að íþróttamenn verða að fá sína hvíld hvort sem þá langar til eða ekki. Nú geta menn bara dúllað sér í smákökunum og öðru jólavafstri.
Æfingar hefjast aftur þegar skóli hefst. Nánar

Leikjaplan fyrir innanúsmótið 14.-15.nóv er komið á síðuna

Knattspyrna | 13.11.2009

Innanhúsmót BÍ88 fer fram um helgina og munu 40 lið frá 4 félögum etja þar kappi. Mótið fer fram bæði laugardag og sunnudag, og hefst keppni kl.9 báða dagana.

Athugið að leikmenn skulu mæta 30 mínútum áður en keppni hefst í hverjum flokki fyrir sig

Mætingar og keppnistími hvers flokks er eftirfarandi:

                                  Mæting                  Keppni hefst

8.flokkur                       09:40                        10:10                  laugardagur

7.flokkur                       08:30                        09:00                  sunnudagur
6.flokkur                       10:00                        10:30                  laugardagur
5.flokkur kvk              08:30/14:00               09:00/14:30           laugardagur/sunnudagur
5.flokkur kk               13:10/09:00               13:40/09:30           laugardagur/sunnudagur
4.flokkur kvk              16:30/13:10               17:00/13:40           laugardagur/sunnudagur
4.fl kk/3.flkvk             11:30/11:30               12:10/12:00           laugardagur/sunnudagur
3.flokkur kk               15:30/15:00               16:00/15:00           laugardagur/sunnudagur
                                  

Leikjaplan fyrir innanhúsmótið um helgina er komið á síðuna.
http://www.hsv.is/bi/skrar_og_skjol/skra/66/

Nánar

3. flokkur með fjáröflun

Knattspyrna | 09.11.2009 3. flokkur karla mun verða með fjáröflun meðan á innanhúsmótinu stendur um næstu helgi. Þá munu þeir selja súkkulaðidagatöl merkt ensku liðunum Liverpool, Manchester United, Arsenal og Chelsea. Þá verða seldar fótboltamyndir úr enska boltanum. Dagatölin munu kosta kr. 1000 en fótboltamyndirnar kr. 200 (mun ódýrara en annars staðar!). Þeir sem hafa áhuga eru því hvattir til að taka með sér pening með fótboltaskónum. Nánar

Niðurfelling æfinga

Knattspyrna | 10.10.2009 Æfingar hjá 3., 4. og 5. flokki drengja og 3. og 4. flokki stúlkna falla niður sunnudaginn 11. október vegna Bocciamóts Ívars. Nánar

Dagsetning á fyrra innanhúsmótinu komin á hreint

Knattspyrna | 09.10.2009 Dagana 14.-15. nóvember nk. munum við halda innanhúsmót í knattspyrnu. Það fer fram í íþróttahúsinu við Torfnes sem fyrr og er áætlað að keppni hefjist kl. 9:00 báða dagana. Gert er ráð fyrir því að eldri flokkarnir (3., 4., 5. og 6. flokkar stráka og stelpna) muni leika báða dagana en 8. og 7. flokkur muni leika á laugardeginum.
Þá er bara að taka þessa daga frá fyrir fótbolta og svo hittumst við hress. Nánar