Eins og sagt var frá fyrr í marsmánuði lagði fríður hópur af fólki af stað til Reykjanesbæjar til að taka þátt í hinu frábæra Nettómóti sem er þar árlega. Mótið fór vel fram eins og ávallt þar á bæ og voru krakkarnir okkar afar sátt og fararstjórar okkar ánægðir. Leikir okkar voru fjörlegir og er svo með þetta mót að allir eru sigurvegarar sem er mjög heilbrigt sjónarmið. Fyrst og fremst eru þessi mót félagsleg og gert til að krakkar kynnist og geti leikið sér innan sem utan vallar. Nægt var framboð á skemmtun hjá gestgjöfum okkar þar sem farið var í leikjagarð, sund, bíó og heljarinnar kvöldskemmtun var haldin. Það er óhætt að segja að krakkarnir okkar hafi heldur betur brosað og voru kát og glöð.
En svo kom að heimferð og þá byrjaði ballið. Ferðin heim sóttist vel mest alla leið en svo skall á óveður og komust menn illa áfram og varð svo að lokum að hópurinn sem samanstóð af fjölda velútbúna jeppa komust mislangt. Það gerði hreinlega blindbyl á Steingrímsfjarðarheiði og í djúpinu. Sumir komust í Reykjanes og fengu inni þar, enda gestrisni mikil þar á bæ. En aðrir urðu fastir á Steingrím vegna bilunar í bíl og fór svo að góðir menn frá björgunarsveitinni Dagrenningu frá Hólmavík komu og sótti fólkið okkar. Farið var með þau niður heiðina til Hólmavíkur þar sem vertinn á Finna hótel tók á móti hópnum og gestrisnin var mikil og góð.
Það fór svo að hópurinn var á Hólmavík þar til á þriðjudeginum og komust heim þá seint um kvöld og þar með var fimm daga ferðalagi lokið með ævintýri bæði fyrir og eftir mót sem fer í sögubækur og veður í minnum haft lengi fyrir þá sem í lentu. Þess ber þó að geta að enginn var í hættu og fararstjórn frábær með Birnu Lárusdóttur í broddi fylkingar.
Við í KFÍ fjölskyldunni viljum þakka öllum sem tóku þátt í þessari ferð kærlega fyrir og sérstakar kveðjur fá fararstjórar, þjálfarar og svo stórar, miklar og innilegar kveðjur fara til fólksins í Reykjanesi og Hólmavík sem bjargaði okkur á ögurstundu.
Nánar
11.flokkur drengja fer suður í Borgarnes og keppir þar í fjölliðamóti laugardag og sunnudag. Og stelpurnar í stúlknaflokk fer til Keflavíkur og tekur þátt í fjölliðamóti þar syðra.
Nóg er að gera á næstunni en unglingaflokkur á eftir nokkra leiki bæði hér heima og að heiman og svo er páskamótið í undirbúningi en eins og hefð er fyrir er mótið haldið á skírdag og verður nánar sagt fá því í byrjun næstu viku.
Nánar
Stjórn Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar og Pétur Már Sigurðsson, yfirþjálfari félagsins, hafa komist að samkomulagi um að endurnýja ekki samstarfssamning sín á milli en samningurinn rennur út í lok apríl. Pétur Már tók við yfirþjálfarastöðu félagsins fyrir tveimur árum og þótt gengi félagsins hafi verið með ágætum síðustu tvö ár eru aðilar sammála um að nú sé rétti tíminn til breytinga.
Leiktímabil beggja meistaraflokka félagsins eru yfirstaðin en æfingar og mót yngri flokka eru enn í fullum gangi og mun Pétur sinna verkefnum þeim tengdum út samningstímabilið. Stjórn og yfirþjálfari eru samstíga í því að tilkynna þessar fyrirhuguðu breytingar með góðum fyrirvara þar sem undirbúningur fyrir leiktímabil næsta vetrar er þegar hafinn.
Stjórn KFÍ vill þakka Pétri Má störf hans í þágu félagsins og óskar honum alls velfarnaðar í nýjum verkefnum.
Okkur tókst að halda okkur í deildinni þrátt fyrir erfiðan vetur og hefur það ekki tekist frá því að við vorum í efstu deild 2003-04. Það má því segja að fólkið sem kom á Jakann í kvöld hafi fagnað ógurlega í leikslok. Lokatölur gegn KR 89-84.
NánarÍ kvöld er síðasta útsending frá Dominos deildinni frá Jakanum í bili er í kvöld kl.19.05 þegar við tökum á móti KR og eru strákarnir á KFÍ-TV að gera klárt. Þeir sem hafa staðið vaktina í vetur eru Jakob Einar Úlfarsson, Sturla Stígsson, Guðmundur Einarsson, Gaui. Þ og Gautur Arnar Gauason.
Þeir vilja koma kveðjum til allra með kærum þökkum og minna á að brátt hefjum við útsendingar frá fótboltanum hér fyrir Vestan.
Þökkum ykkur kærlega fyrir og munið að við erum til leigu í útsendingar um allt land:
Hlekkur á leikinn er hér til hægri á síðunni.
Nánar
Það er óhætt að segja að allt liggi undir leik okkar gegn KR á sunnudagskvöldið n.k. 17.mars. Eftir tap gegn Stjörnunni í kvöld er óhætt að segja að spennan sé í algleymingi og eru fjögur lið sem geta fallið eða haldið sér uppi en það eru Skallagrímur, ÍR, Fjölnir og Tindastóll og því ljóst að það verður allt brjálað í lokaumferðinni á sunnudag.
Karfan.is tók saman pistill um þetta HÉR
Landsbankinn ætlar að bjóða öllum á leikinn og nú verðum við að mæta á Jakann og gera brjálað stuð til að hvetja strákana okkar áfram.
Fyrir leikinn eða kl.18.15 verður Muurikka pannan sett á fullt og seldir "Ísborgarar" að hætti Steina Þráinssonar. Nú verða allir að mæta með alla fjölskylduna og taka þátt í skemmtilegu kvöldi. KFÍ strákarnir eru alls ekki hættir og ætla sér sigur í leiknum.
VIÐ SKORUM Á ALLA VESTFIRÐINGA AÐ MÆTA OG ÖSKRA SIG HÁSA!!!
Áfram KFÍ
NánarÞað má segja að skipst hafi á skini og skúrum á þingi KKÍ sem lauk fyrr í dag. Góðu fréttirnar eru þær að Gaui.Þ (Guðjón M. Þorsteinsson) er kominn í aðalstjórn KKÍ og erum við ákaflega ánæsð með það. En það sem olli miklum vonbrigðum er að þingið breytti enn og aftur reglum um fjölda erlenda leikmanna, en stutt er síðan svokölluð 3+2 regla var sett á og hefur deildin heldur betur verið spennandi sem sést best á stöðu liða fyrir lokaumferðina sem er á morgun.
Afar naumt var í kosningu um þetta mál og munaði tveim atkvæðum þegar kosningu lauk og var niðurstaðan sú að tillaga Njarðvíkur og Fjölnis um að hafa ávallt fjóra leikmenn með íslenskt ríkisfang inn á vellinum í einu samþykkt. Þetta er mjög slæmt fyrir landsbyggðarliðin, en fínt mál fyrir stærri klúbbanna sem hafa úr miklu að moða og stutt í næstu hverfi. Það er afar einkennilegt að ekki hafi verið reynt að halda í 3+2 regluna örlítið lengur, en eins og greint var frá hér fyrr í fréttinni er spennan nánast óþolandi fyrir lokaleiki Dominos deildarinnar sem er annað kvöld. Menn héldu fram að það væru færri áhorfendur á leikjum almennt og það væri vegna þess að ekki væru fleiri íslenskir leikmenn að spila og eins að það þyrfti að gefa íslenskum leikmönnum meiri spilatíma. Það er auðvitað stefna allra að gera svo, en landsbyggðin er því miður oftar en ekki í uppeldishlutverki fyrir liðin fyrir sunnan og eru ófáir landsliðsmennirnir sem hafa komið frá landsbyggðinni til liðanna fyrir sunnan og orðið meistarar þar, en færri eru þeir sem koma til liða út á landi og þess vegna hafa liðin notað sér að geta fengið leikmenn utan landsteinanna til að styrkja lið sín.
Þingmenn að vestan og reyndar af allri landsbyggðinni eru mest svekktir yfir því að vera að hringla með þessar reglur ár eftir ár og verður þetta klárlega til þess að veikja stöðu liða sem missa alltaf unga leikmenn frá sér til náms eða vinnu fyrir sunnan.
Það verður forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála næstu mánuði.
Meira frá KKÍ þinginu og tillögunum sem samþykktar voru er að finna á KKÍ.is
Nánar
Meistaraflokkur kvenna spilaði í dag gegn Grindavík-b suðue með sjó og vann góðan sigur þar. Lokatölur 50-45 og verður nánar fjallað um þennan leik sem og leik sem þær eiga á morgun gegn Breiðablik.
Í dag tóku strákarnir í KFÍ-b á móti liði skagamanna (ÍA) og unnu öruggan sigur. Lokatölur 63-43. Nánar verður fjallað um leikinn í kvöld eða á morgun.
Áfram KFÍ
NánarNú er hafið KKÍ þing í Reykjavík og er Vestanfólk fjölmennt þar. Guðni Ó.Guðnason er í allsherjanefnd og Sævar Óskarsson er í fjárhagsnefnd. Nánar mun verða skýrt frá gangi mála þegar liðið er á þingið. Þess má geta að Guðjón M.Þorsteinsson er í framboði til stjórnar KKÍ.
Nánar
KFÍ fékk það sem þeir áttu skilið í leik gegn Grindavík í kvöld, eða nákvæmlega ekki neitt og stórt tap staðreynd. Lokatölur 93-112.
Það var ljóst frá byrjun að munur á milli þessara liða er gríðarlegur. Grindavík lætur boltann fljóta vel og fær þess vegna opin góð skot á meðan KFÍ strákarnir fóru í einn á einn bolta sem er nákvæmlega það sem lið eins og Grindavík vill. Þar með er opið fyrir hraðaupplaup að það kunna gestir okkar að nýta sér. Staðan var fljótt orðin 6-18 og við að elta gestina. Það var Mirko sem hélt okkur á floti og hann ásamt Damier gerðu það að verkum að við héldumst inn í leiknum og vorum ekki nema 22-28 undir eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta komst skynsamlega hlið okkar í gang og lékum við mjög vel náðum við að minnka muninn í fimm stig og staðan í hálfleik 40-45 og menn gengu nokkuð uppreistir til hálfleiks.
En héldu menn að það væri nóg að setja á sig búning og reyma skóna og þá gerðist allt að sjálfu sér þá er það mikill miskilningur og menn ættu að líta í eigin barm. Við fórum að keyra upp hraðann og gefa einhverjar "no look" sendingar og áður en menn gátu sagt "halló" var staðan orðin 63-78 og þeir setja 35 stig á okkur í þriðja leikhluta!
Við sýndum nokkra góða spretti í fjórða og síðasta leikhluta og Mirko og Damier með dugnaði héldu þessum leikhluta jöfnum, en yfirburðir meistaranna og leikreynsla eru einfaldlega of miklir til að reyna að hlaupa með þeim og þeir sigruðu sanngjarnt. Lokatölur eins og áður sagði 93-112.
Það er ekkert nýtt að Damier er með 30+ og við vitum það. Mirko hefur verið að mikilli siglingu í síðustu leikjum og stóð sig vel heilt yfir en mátti sig lítils gegn grimmum Grindjánum í frákastabaráttunni. Ty átti nokkra fína spretti, en var að reyna of mikið sjálfur og var með lélega nýtingu inn í teig, en var fínn í þriggja stiga og vítnýtingu. En það vilja menn sjá, því á meðan gerir hann ekkert undir körfunni. Jón Hrafn og Kristján Pétur voru týndir og geta mikið mun betur og vonandi gyrða þeir sig í brók. Hlynur, Gummi og Stebbi eru ungir og eiga mikið eftir að sýna, en þetta var leikur sem ekki var hægt að ætlast til of mikils af þeim á stuttum tíma.
Þessi leikur er búinn og það eina sem hægt er að gera er að hugsa um hann í kvöld og læra af þessu fyrir síðustu tvo leikina gegn Stjörnunni og KR.
Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það er marg sannað.
Stig KFÍ
Damier 37 stig, 9 fráköst, 6 stoðir.
Mirko 28 stig, 7 fráköst.
Ty 14 stig, 11 fráköst.
Hlynur 5 stig, 2 fráköst.
Kristján 5 stig, 6 fráköst.
Jón Hrafn 2 stig, 5 fráköst.
Gummi 2 stig, 1 frákast.
Áfram KFÍ
Nánar